Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tugir féllu í blóðugum óeirðum í Indónesíu

24.09.2019 - 06:23
epa07863944 People gather as smoke raises from burning buildings during a violent rally in Wamena, Papua Province, Indonesia, 23 September 2019. According to media reports, a soldier was killed during fresh violent protest in Papua. Indonesian government tighten security in Papua and West Papua province amid continuing unrest that was triggered by accusations that security forces insulted Papuan students in Surabaya, East Java.  EPA-EFE/MISAEL NOEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 26 voru vegin í blóðugum átökum í Papúa-héraði á indónesíska hluta eyjunnar Nýju Gíneu í gær.Tugir særðust, hundruð hafa verið yfirheyrð vegna blóðbaðsins og þúsundir flúið í neyðarskýli á vegum yfirvalda til að bjarga lífi sínu og sinna.

Hörð mótmæli, óeirðir og hrina ofbeldisverka hafa sett daglegt líf fólks í Papúahéraði Indónesíu á annan endann síðustu vikur. Ásakanir um rasisma, mismunun þjóðarbrota og æ háværari kröfur um aukna sjálfstjórn þessa fátæka héraðs ýta undir ófriðinn og harkaleg framganga lögreglu og öryggissveita er sem olía á eldinn.

Minnst 22 dóu í borginni Wamena þar sem fjöldi fólks tók þátt í hörðum mótmælum sem þróuðust út í óeirðir þegar kveikt var í skrifstofubyggingu hins opinbera og fleiri byggingum í gær. Hluti þeirra sem létust fórust í eldsvoðum af mannavöldum, að sögn yfirvalda. Minnst 70 særðust í óeirðunum og eldunum og um 700 manns voru yfirheyrð.

Fólk brennt og brytjað í spað

„Kveikt var í sumum, sum voru brytjuð í spað og önnur brunnu inni í húsum sem kveikt var í," sagði yfirmaður í lögreglu borgarinnar í samtali við AFP-fréttastofunnar, og bætti því við að enn ætti eftir að leita í brunarústum margra bygginga.

Fjögur til viðbótar, einn hermaður og þrír óbreyttir borgarar, létust í héraðshöfuðborginni Jayapura, þegar til átaka kom milli öryggissveita og mótmælenda. Lögreglumaðurinn var stunginn til bana en þrír háskólastúdentar létust af sárum sínum, sem þeir hlutu af gúmmíkúluskothríð öryggissveitanna. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV