Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Tryggja að málið endurtaki sig ekki

19.02.2012 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor segir að ekkert bendi til þess að stundakennari við guðfræðideild háskólann sem Vantrú kærði hafi gerst brotlegur í starfi. Búið sé að endurskoða starfsreglur siðanefndar háskólans til að tryggja að málið endurtaki sig ekki.

Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson stundakennara til siðanefndar fyrir að vera ekki hlutlægur og sanngjarn í umfjöllun um félagið. Siðanefnd háskólans lagði fram sáttatillögu í deilunni þar sem fallast átti á sekt kennarans. Átti hann að viðurkenna að hafa ekki verið hlutlægur og sanngjarn í umfjöllun um Vantrú. Yfir hundrað háskólakennarar gagnrýndu siðanefndina harðlega og sögðu að niðurstaðan gæti falið í sér aðför að skólastarfi í landinu. Ekkert benti til þess að ásakanirnar væru réttar

Kristín sendi bréf til allra starfsmanna til að ljúka málinu. Ítreka þurfi þá frumskyldu háskóla að standa vörð um akademískt frelsi starfsmanna sinna í kennslu og rannsóknum og engin óvissa megi ríkja um rétt háskólakennara ti lað tjá sig frjálst í kennslustofunni samkvæmt eigin sannfæringu. Sá réttur feli í sér að heimilt sé að gagnrýna ólík viðhorf, kenningar og gildimat og takmarkast hann aðeins af lögum í samfélaginu og viðurkenndum siðareglum háskólasamfélaga.

Kristín bendir á að efnisleg niðurstaða hafi ekki náðst í siðanefnd háskólans. „Vegna þess að þar náðist ekki efnisleg niðurstaða þá vildi ég árétta á það að það hafi ekkert komið fram í meðferð málsins sem að bendi til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi,“ segir Kristín. „Við höfum endurskoðað starfsreglur siðanefnedar og formfestu sem varðar málsmeðferð og ég held að við séum búin að fullvissa okkur um það að atburðarrás af þessu tagi endurtaki sig ekki.“