Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tryggingastofnun fellir niður og endurgreiðir kröfur

10.02.2020 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tryggingastofnun hefur ákveðið að fella niður eða endurgreiða kröfur sem gerðar voru til öryrkja vegna dráttarvaxta sem reiknuðust til fjármagnstekna á árinu 2018. Reykjavíkurborg greiddi dráttarvextina eftir dóm Hæstaréttar um húsaleigubætur.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að Reykjavíkurborg hefði ekki mátt synja einstaklingi um sérstakar húsaleigubætur. Tæpum tveimur árum síðar samþykkti borgarráð að greiða öllum þeim sem dómurinn gæti átt við bætur í samræmi við dóminn og dráttarvexti. 

Þeir dráttarvextir voru skilgreindir sem fjármagnstekjur við yfirferð Tryggingastofnunar og örorkulífeyrir viðkomandi skertur sem því nam.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ segist afar ánægð með þessa niðurstöðu. „Við höfum barist í þessu máli í rúmt ár, og upplifað það sterkt hversu flókið kerfið er og þungt í vöfum. Þetta er því einstaklega ánægjuleg niðurstaða, því nú er tryggt að  þessi niðurfelling nái til allra sem í hlut áttu.“

Samkvæmt upplýsingum frá Öryrkjabandalaginu gátu kröfur Tryggingastofnunar um endurgreiðslu verið frá nokkrum tugum þúsunda í frádrátt. Í einhverjum tilfellum sé búið að draga frá mánaðargreiðslum og dreifa skuldinni frá því um mitt ár í fyrra.

Fólkið fær nú endurgreitt og vexti fellda niður, samkvæmt pósti frá Tryggingastofnun. Þar sem málið þyki einstakt hafi Tryggingastofnun ákveðið að forsendur væru til að kanna að eigin frumkvæði hvort ástæða væri til þess að fella kröfuna niður. Niðurstaðan hafi verið að fella kröfuna niður og verði innborganir greiddar til þeirra sem við á.  

Skerðingarnar snertu í kringum 500 manns upphaflega og voru um 140 þeirra búnir að sækja sjálfir um niðurfellingu, samkvæmt upplýsingum frá Öryrkjabandalaginu. 

Í póstinum frá Tryggingastofnun kemur fram að skattyfirvöld verði upplýst um niðurfellinguna. Skattyfirvöld ákveði hvort niðurfellingin teljist til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV