Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tryggingastofnun bara búin að borga mömmu Ingu Sæland

17.02.2020 - 15:47
Inga Sæland í eldhúsdagsumræðum Alþingis
 Mynd: Fréttir
Tryggingastofnun hefur eingöngu greitt móður Ingu Sæland eftir dóm Landsréttar í maí. Aðrir sem voru í sömu stöðu og hún fengu greitt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar um velferðarmála sem vísaði málinu til ráðuneytisins og þar er málið nú. Félagsmálaráðherra segir að ráðuneytið muni væntanlega úrskurða í málinu sem Landsréttur hefur þegar komist að niðurstöðu um.

Landsréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sigríðar Sæland Jónsdóttur sem snerist um lífeyrisgreiðslur í ársbyrjun 2017.   Tryggingastofnun lækkaði greiðslur vegna tekna lífeyrisþega frá lífeyrissjóðum án þess að heimild hefði verið fyrir því í lögum.

Í lok febrúar 2017 setti Alþingi lög sem heimiluðu skerðinguna afturvirkt og Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið heimilt.  Dómurinn var talinn þýða að ríkið þyrfti að greiða ellilífeyrisþegum fimm milljarða vegna skerðingarinnar þessa tvo mánuði.  

Flokkur fólksins höfðaði málið á sínum tíma. Lögmaðurinn sem rak málið valdi móður Ingu sem aðila málsins þar sem hún var með lægstu lífeyrissjóðsgreiðsluna og átti mestu möguleikana á að hljóta gjafsókn.

En í óundirbúnum fyrirspurnatíma greindi Inga frá því að aðeins mamma hennar hefði fengið greitt og krafði Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, um svör.  

Ásmundur sagði það rétt að móðir Ingu hefði fengið dráttarvextina greidda, aðrir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar hefði verið kærð til úrskurðarnefndar um velferðarmál sem síðan hefði vísað málinu til félagsmálaráðuneytisins. Þar væri málið statt núna. „Ráðuneytið mun væntanlega úrskurða í málinu.“

Ásmundur hefur áður sagt í ræðustóli Alþingis að hann sjái eftir þeim fjármunum sem fari til efstu tekjutíundarinnar sem séu 2 til 3 milljarðar vegna dómsins. Þetta séu fyrrverandi þingmenn og fyrrverandi forstjórar.  „Þessum fjármunum hefði ég gjarnan viljað verja til tekjulægstu hópa samfélagsins.“

Ítarleg umfjöllun um málið verður í fréttaskýringaþættinum Kveik annað kvöld, þriðjudag.