Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump staðfestir áhuga sinn á Grænlandi

19.08.2019 - 01:31
Mynd: EBU / EBU
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, staðfesti í kvöld áhuga sinn á að kaupa Grænland. Hann tjáði blaðamönnum að hugmyndin hafi borið á góma hans og ráðgjafa. Trump sagði landlegu Grænlands hernaðarlega mikilvæga og því sé áhuginn fyrir hendi. Hann sagðist ætla að koma hugmyndinni að á fundi sínum með dönskum stjórnvöldum í byrjun næsta mánaðar, þó það verði ekki forgangsatriði.

Wall Street Journal greindi fyrst frá áhuga Trumps á fimmtudag. Trump er þó ekki fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að bera víurnar í Grænland. Harry Truman gerði tilboð rétt eftir síðari heimsstyrjöld. Eins lýsti bandaríska utanríkisráðuneytið áhuga á að kaupa Grænland og Ísland af Dönum um miðja 19. öld. Danir hafa hins vegar ekki viljað láta Grænland af hendi.

Blaðamenn spurðu Trump í kvöld hvort hann væri tilbúinn að skoða einhvers konar skipti á bandarísku landsvæði í stað Grænlands. Trump svaraði því til að margir möguleikar væru í stöðunni. Þetta væri fyrst og fremst stór fasteignasamningur. Trump benti á að Danir finni vel fyrir því að reiða nærri 700 milljónir dollara af hendi á ári hverju til Grænlands.

Utanríkisráðuneyti grænlensku heimastjórnarinnar gaf skýrt svar við hugmyndinni á föstudag. Stjórnvöld væru vissulega reiðubúin til viðskiptaviðræðna, en landið væri ekki til sölu. Mette Frederiksen fór í sína fyrstu opinberu heimsókn til Grænlands sem forsætisráðherra Danmerkur í dag. Hún segir í samtali við danska ríkisútvarpið að hún og Kim Kielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, hafi um margt að ræða. Frederiksen segir mögulegt kauptilboð Bandaríkjanna í Grænland ekki vera á meðal umræðuefna. Hún segir jafnframt að hún sé orðin þreytt á umræðuefninu, hugmyndin sé fáránleg.