Trump skipar starfsmannastjóra - Mulvaney til N-Írlands

07.03.2020 - 04:32
Mynd með færslu
 Mynd: G. Skidmore - Wikipedia
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur skipað fulltrúadeildarþingmanninn Mark Meadows í embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins. Forsetinn tilkynnti þetta á Twitter í gærkvöld. Repúblikaninn Meadows, sem situr á þingi fyrir Norður-Karólínu, ku vera á meðal einörðustu stuðningsmanna forsetans í fulltrúadeildinni, samkvæmt frétt New York Times, og sóttist eftir starfsmannastjórastöðunni þegar John F. Kelly var látinn taka pokann sinn í árslok 2018.

Trump ákvað hins vegar að skipa Mick Mulvaney, fjármálastjóra forsetaembættisins og forstjóra Neytendastofnunar og fyrrverandi þingmann í stöðuna til bráðabirgða.

Hann missti það út úr sér á blaðamannafundi í október í fyrra, að forsetinn hefði gert rannsókn á umsvifum Hunters Biden og innbrotinu í netþjón Demókrataflokksins að skilyrði fyrir hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Úkraínu.

Mulvaney dró þetta til baka nokkrum klukkustundum síðar og sagði fjölmiðla hafa rangtúlkað orð sín. Tími hans í Hvíta húsinu er engu að síður á enda og hann á leið til Belfast, því Trump skipaði hann í stöðu sendifulltrúa Bandaríkjanna á Norður-Írlandi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi