Trump segir Írana vera að draga sig í hlé

08.01.2020 - 21:36
epa08112707 US President Donald J. Trump (C) delivers a statement on the US response to Iranian missile strikes, in the Grand Foyer of the White House in Washington, DC, 08 January 2020. Iran has launched missile strikes against two military bases in Iraq that house US forces, in retaliation to the killing of Iranian Revolutionary Guards Corps Lieutenant general and commander of the Quds Force, Qasem Soleimani, by a US drone strike in Baghdad.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Árásir Írana á bandaríska herstöð í Írak í gær ollu litlu eða engu tjóni, sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti þegar hann ávarpaði bandarísku þjóðina síðdegis í dag. Hann segir að flest bendi til þess að Íranar hyggi ekki á frekari árásir. 

Íranski herinn skaut á annan tug flugskeyta á bandarískar herstöðvar í Írak í gærkvöld og Íranska ríkissjónvarpið greindi frá því að tugir hefðu farist í árásunum. Íranar segja árásina hefnd fyrir morðið á hershöfðingjanum Kasim Soleimani fyrir helgi. Donald Trump ávarpaði Bandarísku þjóðina síðdegis í dag og sagði fregnir af mannfalli rangar.

„Bandaríska þjóðin ætti að vera ánægð og þakklát. Enginn Bandaríkjamaður særðist í árás Írana og enginn lét lífið. Allir okkar hermenn eru heilir á húfi og ekki urðu varanlegar skemmdir á bandarískum herstöðvum,“ sagði Trump.

Trump kenndi forvera sínum í embætti, Barack Obama, að hluta um ástandið því kjarnorkusamningurinn sem Obama gerði við Íran hafi gert þeim kleift að fjármagna stríðsrekstur í Jemen, Sýrlandi, Líbanon, Afganistan og Írak. Trump óskaði eftir því að viðræður um samninginn yrðu teknar upp að nýju en óvíst er hvort Íranar fallist á það. Trump gaf í skyn í ræðunni að mjög hefði dregið úr spennu milli ríkjanna. 

„Okkar hugrökku bandarísku hermenn eru tilbúnir í hvað sem er. Íranar virðast vera að draga sig í hlé, sem er gott fyrir alla sem sitja að  borðinu. Og ekki síst gott fyrir heimsbyggðina,“ sagði Trump.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi