Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump og Kim tókust í hendur á landamærunum

President Donald Trump meets with North Korean leader Kim Jong Un at the border village of Panmunjom in the Demilitarized Zone, South Korea, Sunday, June 30, 2019. (AP Photo/Susan Walsh)
 Mynd: AP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður Kóreu, hittust í morgun í „friðarþorpinu" Panmunjon á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja „bara til að takast snöggvast í hendur," eins og Trump orðaði það í boði sínu til Kims, en Trump er í opinberri heimsókn í Seúl.

„Stórkostlegur dagur fyrir heiminn“

„Þetta er stórkostlegur dagur fyrir heiminn og það er mér mikill heiður að vera hérna," sagði Trump þegar hann steig fæti á norður-kóreska grund, fyrstur sitjandi Bandaríkjaforseta. „Margir stórkostlegir hlutir eru að gerast."

Þeir Kim hittust og heilsuðust við landamærin, ásamt Moon Jae-in, forseta Suður Kóreu, sem fylgdi Trump til fundarins. Síðan gekk Trump yfir landamærin þar sem hann ræddi við Kim og sagðist afar stoltur af því að fá að heimsækja Norður Kóreu.

„Dásamlegt“ samband Kims og Trumps

Kim sagði „dásamlegt“ samband þeirra Trumps munu gera þessum fornu óvinaríkjum kleift að ryðja öllum hindrunum úr vegi í friðarviðræðunum, sem legið hafa niðri um hríð. Fyrr í nótt  dásamaði Trump líka samband þeirra Kims og sagðist hlakka afar mikið til að hitta hann. Eftir stutt spjall kvöddust leiðtogarnir tveir og héldu hvor sína leið.

Þessi stutti en sögulegi fundur er sá þriðji en að líkindum ekki sá síðasti sem þeir Kim og Trump eiga, ef allt gengur eftir, því Trump segist vel geta hugsað sér að bjóða Kim í heimsókn í Hvíta húsið áður en langt um líður. 

Afar óvænt og enn óvenjulegra fundarboð

Moon Suður-Kóreuforseti, sem fylgdi Trump að landamærunum, bar mikið lof á þá Kim fyrir að sýna þá dirfsku og þor að hittast með þessum hætti og „takast í hendur í þágu friðarins." Segist hann vonast til að Trump verði minnst í sögunni sem forsetans, sem kom á friði á Kóreuskaganum.

Trump sendi Kim óvænt, óformlegt og afar óvenjulegt boð á Twitter skömmu áður en hann hélt frá Osaka til Seúl í gær, um að hitta sig á hlutlausa svæðinu „bara til að takast í hendur og segja halló." Ekkert formlegt erindi var sent og ekkert formlegt svar barst heldur frá PjongJang. Einu viðbrögð stjórnvalda þar voru að segja tilboðið „mjög athyglisvert." 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV