Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump og Kim hittast í nótt

30.06.2019 - 05:15
epa07683896 South Korean President Moon Jae-in (R) and US President Donald Trump (L) conduct a joint press conference after holding expanded talks at the presidential office Cheong Wa Dae in Seoul, South Korea, 30 June 2019. The US leader arrived in South Korean on 29 June for a two-day visit that will include a meeting with South Korean President Moon Jae-in and a trip to the Demilitarized Zone (DMZ).  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
Donald Trump Og Moon Jae-in ræða við fréttafólk skömmu eftir komuna til Seúl Mynd: EPA-EFE - YNA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður Kóreu, ætla að hittast stuttlega á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja innan skamms „bara til að takast snöggvast í hendur," sagði Trump, sem er í opinberri heimsókn í Seúl.

„Við erum að fara til hlutlausa svæðisins á landamærunum og ég mun hitta Kim formann. Ég hlakka mjög mikið til þess. Við höfum þróað mjög gott samband okkar á milli," sagði forsetinn. Moon Jae-in, forseti Suður Kóreu greindi frá fyrirhuguðum fundið þeirra Trumps og Kims skömmu áður og sagði þá ætla að „takast í hendur í nafni friðarins" á svæðinu sem aðskilið hefur Kóreuríkin um áratugaskeið.

Afar óvenjulegur fundur og enn óvenjulegra fundarboð

Trump sendi Kim óvænt, óformlegt og afar óvenjulegt boð áður en hann hélt frá Osaka til Seúl í gær, um að hitta sig á hlutlausa svæðinu „bara til að taka í hendina á honum og segja halló." Ekkert formlegt erindi var sent og ekkert formlegt svar barst heldur frá PjongJang. Einu viðbrögð stjórnvalda þar voru að segja tilboðið „mjög athyglisvert."

Moon, forseti Suður Kóreu, ber mikið lof á þá Kim og Trump fyrir að sýna þá dirfsku og þor að hittast með þessum hætti. „Ég vona að Trump forseta verði minnst í sögunni sem forsetans, sem kom á friðið á Kóreuskaganum," sagði Moon, sem fylgir Trump á fund Kims. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV