Trump fer til El Paso á morgun

06.08.2019 - 04:30
epa07757969 US President Donald J. Trump makes a statement at the White House in Washington, DC, USA, on 05 August 2019 in response to two separate shooting incidents.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Consolidated News Photos POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti fer á morgun til El Paso í Texas þar sem 22 voru myrtir og 27 særðir í skotárás á laugardag. Frá þessu greindi Dee Margo borgarstjóri El Paso.

Margir íbúar borgarinnar hafa lýst því yfir að forsetinn sé ekki velkominn þangað og saka hann að hafa kynt undir kynþáttahatur með orðræðu sinni um marga minnihlutahópa.

Íbúar El Paso eru flestir af rómönsku bergi brotnir en hún er við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó. Sjö þeirra sem féllu í árásinni voru mexíkóskir ríkisborgarar. Einn þýskur ríkisborgari lést í árásinni og 13 voru Bandaríkjamenn. Enn er ekki vitað hvers lenskt eitt fórnarlambanna er.

Margo er samflokksmaður Trumps í Repúblikanaflokki og mikill stuðningsmaður hans. Hann hefur varið tilvonandi heimsókn forsetans og segir hann hafa boðið fram alla þá aðstoð sem þörf væri á í símtali í gær.

Hann hyggst fara þess á leit við forsetann er hann sækir borgina heim að alríkisyfirvöld aðstoði borgaryfirvöld eftir fremsta megni.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi