Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trúlega þarf að bæta í sóttvarnabúnað vegna Wuhan-veiru

31.01.2020 - 12:26
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Almannavarnir vinna nú að viðbragðsáætlun til að tryggja innviði, berist Wuhan-kórónaveiran hingað til lands. Trúlega verður bætt í sóttvarnarbúnað í landinu að sögn aðalvarðstjóra hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Tryggja samgöngur, rafmagn, skólahald og birgðir

Samhæfingamiðstöð almannavarna í Skógarhlíð var virkjuð í morgun til að afla upplýsinga og samræma viðbrögð. „Við eigum til viðbragðsáætlun fyrir heimsfaraldur á inflúensu, við erum að nota þá viðbragðsáætlun fyrir þessa veiru, það þarf að gera ýmsar lagfæringar á henni og uppfærslur eins og þarf að gera með tíð og tíma. Við erum sem sagt í þeirri vinnu núna,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þá verður farið yfir það með þeim sem hafa hlutverk gagnvart áætluninni hvað þeir eigi að vera að gera.

Sóttvarnalæknir vinnur að viðbragði gagnvart heilbrigðisgeiranum. Viðbragðsáætlanir almannavarna snúa að almannavörnum fyrst og fremst. „Tryggja að innviðirnir haldi. Samgöngur og rafmagn, skólahald, birgðardreifing og svo framvegis,“ segir Rögnvaldur jafnframt.

Þarf að panta að utan birgðir eða tæki eða tól? „Það snýr þá aðallega að varnarbúnaði og það er stór lager til á landinu sem sóttvarnalæknir á og heldur utan um en trúlega verður bætt í hann til að hafa vaðið fyrir neðan okkur. Það er það eina sem er núna vitað að þurfi að gera.“ 

Almannavarnir með þrjú óvissustig í gildi

Nú er óvissustig vegna veirunnar, þarf að hækka það? „Við erum í sérstakri stöðu núna, við erum með þrjú óvissustig í gangi.“ Og vísar Rögnvaldur þá í óvissustig vegna mögulegrar kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga. Þá er enn óvissustig í gildi á Vestfjörðum vegna snjóflóðanna á Flateyri og í Súgandafirði, sem féllu fyrr í mánuðinum. Rögnvaldur segir ekki talin ástæða til að færa óvissustig vegna veirunnar á hættu- og neyðarstig.

Möguleiki til framtíðar að takmarka samkomur

Hverju viltu beina til fólks? „Halda ró sinni og fylgjast vel með í fjölmiðlum. Það eru mjög góðar upplýsingar á heimasíðu landlæknis um leiðbeiningar til fólks, margar af þessum leiðbeiningum eru líka ágætar í inflúensufaraldri sem er líka í gangi núna, hugsa um handþvott og sóttvarnir almennt. Þannig bara endilega að kíkja þar inn og fylgjast vel með.“

Kemur til greina að biðja fólk um að takmarka fundi og samkomur eða slíkt? „Það er einn af þeim möguleikum sem við eigum til framtíðar og þetta er eitt af því sem verður mögulega skoðað, en við erum ekki komin þangað nei,“ segir Rögnvaldur jafnframt.