Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Trúlega ekkert gert ef þetta væri á hálendinu

26.01.2020 - 20:01
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
„Ef þetta væri á öðrum stað heldur en þarna, ef þetta væri einhvers staðar uppi á hálendi, þá væri trúlega ekki gert neitt en við þurfum alltaf að hugsa út frá því versta sem gæti gerst,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, um þá ákvörðun að lýsa yfir óvissustigi vegna mögulegrar kviksöfnunar undir fjallinu Þorbirni, nærri Grindavík.

Samhæfingarmiðstöð almannavarna hefur ekki verið virkjuð og verður ekki virkjuð nema eitthvað gerist umfram það sem nú þegar hefur gerst.

Drög að rýmingaráætlun verða kynnt fyrir íbúum á fundi á morgun. Rögnvaldur segir að í henni verði meðal annars að finna hvernig boðum verði komið til íbúa ef þörf krefur, hvaða leiðir þeir ættu að fara af staðnum og hvað tæki við. Smáskilaboð yrðu send á alla farsíma á svæðinu og fengju erlendir ríkisborgarar skilaboð á sínu móðurmáli. Um 3.500 búa í Grindavík og allt að 1.200 eru í Svartsengi og Bláa lóni þegar mest er, þetta eru því hátt í fimm þúsund manns.