Trúir því að listamenn megi segja sína sögu

Mynd: RÚV / RÚV

Trúir því að listamenn megi segja sína sögu

03.10.2019 - 11:32
Tónlistarmaðurinn Auður er án efa einn stærsti tónlistarmaður landsins. Plata hans, Afsakanir, hlaut eintóma lof gagnrýnenda þegar hún kom út í nóvember 2018. Hún var valin raftónlistarplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Auður sjálfur var valinn lagahöfundur ársins.

Auður er listamannsnafn Auðuns Lútherssonar sem hefur verið viðloðinn tónlist frá unga aldri. Hann var þá líka mikið í íþróttum en uppgötvaði fljótt að hann langaði miklu meira að vera í tónlist. Fyrst um sinn var hann einungis að spila á hljóðfæri og það var ekki fyrr en hann fór að syngja sem að Auður varð til. 

„Ég held að ég hafi byrjað að syngja af því að ég losnaði við spangirnar. Ég þorði ekkert að brosa þegar ég var með spangir. Ég er samt hættur að fá minnimáttakennd út af þessu, Freddy Mercury sneri baki í fólk af því hann var með svo slæmar tennur.“

Næstum tvö ár líða frá því að Alone kemur út og þangað til Afsakanir líta dagsins ljós. Aðspurður af hverju hann búi til Afsakanir segir Auðunn hann einfaldlega hafa þurft að gera það. Lögin á Afsökunum hafa að geyma þung þemu eins og sjálfsvíg, missi og glímuna við geðræna sjúkdóma og Auðunn segir að eftir að maður opni sig opinberlega um svona málefni haldi fólk að það geti gert það sama í samskiptum við hann og því fylgi töluverð ábyrgð. 

„Skrítið að vera allt í einu orðinn „poster-boy“ fyrir það að fara inn á geðdeild og reykja gras og vera skilgreindur út frá því, það var ekki alveg planið.“ 

Eftir útgáfu plötunnar heyrðust þó gagnrýnisraddir varðandi viðfangsefni hennar sem Auðunn segist hafa tekið með ró. „Ég trúi því að listamaðurinn megi segja sína sögu, mér er alveg sama um skoðanir fólks sem ég þekki ekki. Það sem er erfitt er þegar maður er með fólki sem manni þykir vænt um þegar þær manneskjur eru ósammála því sem maður er að gera, það er erfitt.“ 

Auðunn er viðmælandi Atla Más Steinarssonar í sjötta og síðasta þætti annarrar seríu Rabbabara. Hægt er að horfa á þáttinn í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan en seríuna í heild sinni má sömuleiðis nálgast í spilaranum á ruvnull.is.