Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Truflun á farsímasambandi á Norðurlandi

11.12.2019 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Már Meldal - Aðsend mynd
Póst- og fjarskiptastofnun hafa borist nokkrar tilkynningar um farsímasamband hafi dottið út. Þetta á einkum við um Norðurland þar sem sums staðar hefur verið rafmagnslaust frá því í gærdag. Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að einnig hafi frést af truflunum á tetrakerfi almannavarna. Þá er einnig röskun á útsendingum sjónvarps og útvarps, einkum nyrðra.

Farsímasambandslaust hefur verið víða bæði á Norðurlandi og Austurlandi. Staðan er verst þar sem rafmagnslaust hefur verið frá því um miðjan dag í gær á norðanverðu landinu. „Í samráði við önnur fjarskiptafélög um neyðarfjarskipti hefur 4G-þjónusta verið takmörkuð til að draga úr rafmagnsnotkun á þeim svæðum þar sem farsímasendar ganga á varaafli,“ segir í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttastofu RÚV. 

„Sjónvarpssendingar í lofti og FM sendingar hjá öllum útvarpsstöðvum eru einnig verulega skertar bæði á norður og austurlandi. Langbylgja RÚV virkar hins vegar um allt land,“ segir jafnframt í svari Vodafone. Ekki hafi orðið mikið tjón á búnaði Vodafone.

Á vef Vodafone er þessi tilkynning:

Vodafone er á viðbúnaðar- og viðbragðsstigi.

 

Vegna veðurs og rafmagnstruflana má búast við að röskun verði á þjónustu Vodafone á Norður- og Austurlandi í dag.

Fréttastofan tekur feginshendi við myndum og myndskeiðum af veðri og vandræðum, einkum ef myndirnar eru teknar þannig að þær eru meira á breiddina en hæðina, þ.e.a.s. ef símanum er snúið á hlið en ekki upp á rönd.

Fréttin hefur verið uppfærð.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV