Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trudeau tapar fylgi en sigrar þó

22.10.2019 - 06:47
epa07939638 Canadian Prime Minister and Liberal Party leader Justin Trudeau (L) and wife Sophie Gregoire (R) greet supporters as they celebrate election victory in Montreal, Quebec, Canada, 21 October 2019. Liberal Party leader Justin Trudeau has retained his position as Canadian Prime Minister in the federal election but will be forced to form a minority government.  EPA-EFE/VALERIE BLUM
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og kona hans, Sophie Gregoire, fagna úrslitunum Mynd: EPA-EFE - EPA
Frjálslyndi flokkurinn tapar fylgi en verður áfram stærstur á Kanadaþingi og Justin Trudeau áfram forsætisráðherra, samkvæmt útgönguspám. Trudeau mun þó ekki leiða meirihlutastjórn eins og á liðnu kjörtímabili, heldur minnihlutastjórn, sem þarf að reiða sig á stuðning eða í það minnsta hlutleysi minni flokks eða flokka.

 

Samkvæmt spá kanadíska ríkissjónvarpsins, CBC, fá Frjálslyndir 156 af 338 þingmönnum í fulltrúadeild þingsins, en fengu 184 í síðustu kosningum. Helsti keppinautur þeirra, Íhaldsflokkurinn undir forystu Andrews Scheers, eykur hins vegar fylgi sitt og fjölgar þingmönnum úr 99 í 122.

Afar litlu munar á fylgi flokkanna tveggja í prósentum talið. Kosningafyrirkomulagið, sem byggt er á einmenningskjördæmum, veldur því hins vegar að mun meiri munur getur orðið á þingstyrk flokka en fylgi þeirra á landsvísu segir til um.

Quebec-blokkin, flokkur sem setur sjálfstæði hins frönskumælandi Quebec-héraðs á oddinn, vann mikið á og verður þriðji stærsti flokkurinn á þinginu, gangi þessar spár eftir. Flokkurinn, sem galt afhroð í síðustu kosningum,  þrefaldar þingstyrk sinn, sem fer úr 10 þingmönnum í allt að 32.

Nýir demókratar tapa hins vegar umtalsverðu fylgi og fá 24 þingmenn í stað 40 áður. Græningjar, sem gerðu sér góðar vonir um að stórauka fylgi sitt í dag, fá einungis þrjá þingmenn, en voru með tvo. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV