
Yfir eitt þúsund og sex hundruð manns hafa látist í ebólufaraldrinum sem hefur geisað í austur-Kongó. Um tvö þúsund og sex hundruð tilfelli hafa verið staðfest. Magna Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur, er nýkomin frá Úganda, þar sem hún var í mánuð á vegum Rauða krossins að aðstoða við að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins. Hún segir marga á svæðinu enn neita því að trúa að ebólufaraldurinn sé raunverulegur.
Ebólufaraldurinn útspil stjórnvalda
„Það er mikil vantrú í gangi og það eru margar sögusagnir í gangi. Það hefur gríðarleg áhrif oft þegar kemur að því að nálgast fólkið með meðferð og fræðslu. Það eru alltaf ákveðnar sögusagnir um að ebólan sé ekki til. Að hún sé ekki raunveruleiki. Hún er eitthvað sem jafnvel stjórnvöld eru að búa til sem ákveðið spil í sínu. Það eru endalausar sögusagnir sem fylgja alltaf að það sé verið að safna líffærum fólks inni á þessum ebóluspítölum. Þetta hefur allt áhrif,“ segir Magna.
Þá hafa langvarandi átök uppreisnarhópa og hersins gert heilbrigðisstarfsfólki erfiðara fyrir. „Átökin í landinu hafa gífurleg áhrif. Það hafa verið gerðar árásir á spítala sem eru að sinna ebólusjúklingum. Heilbrigðisstarfsmenn hafa verið drepnir. Margir hafa slasast, þannig að átökin hafa gífurleg áhrif,“ segir hún.
Óttast frekari útbreiðslu
Magna segist búast við því að ástandið eigi eftir að versna og faraldurinn gæti breiðst yfir landamæri. Þrjú tilfelli hafa greinst í borginni Goma í Kongó, sem er við landamærin að Rúanda. „Miðað við að það er ekkert að slaka á útbreiðslunni þá óttast maður það. Sérstaklega þegar fleiri tilfelli eru að greinast í svona þéttbýlum borgum eins og Goma.“
Ekki æskilegt að loka landamærum
Stjórnvöld í Rúanda lokuðu landamærunum að Kongó í átta tíma á fimmtudaginn af ótta við útbreiðslu ebóluveirunnar þangað. Magna segir ekki æskilegt að loka landamærum til að hefta útbreiðslu faraldursins. Fólk fari þá yfir landamærin með öðrum leiðum og komist hjá því að fara í eftirlit sem það hefði annars farið í gegnum.
„Þetta er eitthvað sem búið er að ræða oft og mikið og fram og til baka í gegnum tíðina og hefur sýnt að í rauninni skilar ekki miklum árangri að loka og loka fólkið inni í sinni borg eða sínu héraði. Málið er að það veldur bara talsverðum ótta. Fólk verður hrætt. Fólk fer að sýna ákveðna vantrú á heilbrigðisyfirvöldum. Á hjálparstarfsmönnum. Á því sem er verið að gera og leitar annarra leiða,“ bætir hún við.