Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Treysti algjörlega á GPS og villtist til Sigló

02.02.2016 - 21:03
Bandarískur ferðamaður, sem keyrði að Laugarvegi á Siglufirði fyrir mistök í gær, segist nokkuð ánægður með að hafa villst þangað. Hann ætlaði á hótel í miðbæ Reykjavíkur en GPS-tæki sagði honum að keyra alla leið norður.

Noel kom til landsins í gærmorgun eftir fimm tíma flug frá New York. Hann var nokkuð þreyttur þegar hann fór að sækja lykla að bílaleigubílnum og GPS tæki. Í afgreiðslunni bað hann um að heimilisfang Hótels Fróns yrði slegið inn samkvæmt bókunarblaði sem hann hafði meðferðis. Þar var heimilisfangið ekki rétt og hvorki hann né starfsmaður bílaleigunnar tóku eftir því.

Munar einu r-i og 400 kílómetrum
Villan lítur sakleysilega út en reyndist afdrifarík. Eitt auka R í heimilisfangi Hótels Fróns gerði það að verkum að GPS tækið sagði Noel að keyra að Laugarvegi á Siglufirði, en ekki að Laugavegi í Reykjavík. Munurinn eru tæpir 400 kílómetrar og Noel segist hafa fengið bakþanka á leiðinni.

„Ég stoppaði, en ég spurði ekki til vegar. Ég fór inn á bensínstöð því ég var þyrstur, svo ég fékk mér vatn. Ég þurfti líka smá hvíld, því ég var syfjaður. Eftir um tíu mínútur hélt ég svo áfram,“ segir Noel.

Treysti á GPS tækið
Hann segist vanur því að treysta á GPS tæki í Bandaríkjunum og keyrði því áfram, þrátt fyrir að skiltin segðu honum að snúa við.

„Já, ég treysti algjörlega á GPS tækið og hélt að það myndi leiða mig á réttan stað. Í fyrsta lagi, því ég hef enga aðra tengingu nema GPS hérna. Í öðru lagi, þá nota ég tæknina mikið í Bandaríkjunum, og Google Maps, og það hefur aldrei leitt mig í ógöngur.“

Ánægður með viðtökurnar

Viðtökurnar á Siglufirði hafa verið mun betri en Noel gat ímyndað sér þegar honum varð ljóst hvar hann væri.

„Þetta hefur verið frábært. Ég hef skemmt mér mikið, útsýnið er frábært og sömuleiðis bærinn. Fólkið hefur verið svo hjálpsamt og gott við mig, ég er mjög glaður að vera hér,“ segir Noel.