Treyst á Norðurlandamafíuna

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Treyst á Norðurlandamafíuna

14.05.2019 - 16:51

Höfundar

Norðurlandaþjóðirnar hafa í gegnum tíðina verið sakaðar um að sýna hver annarri fullmikinn frændskap í stigagjöf í Söngvakeppninni. Hvort sem eitthvað er til í því eða ekki hafa Íslendingar gjarnan verið uggandi ef við lendum ekki með hinum Norðurlandaþjóðunum í undanriðli því við teljum okkur oft eiga inni stig hjá frændsystkinum okkar.

Sem dæmi um tilvik þar sem Íslendingar hafa staðið í þakkarskuld við gjafmildi Norðurlandabúa má nefna þegar Danmörk splæsti eftirminnilega 12 stigum  í lagið Tell me með Einari Ágústi og Thelmu og gaf okkar flytjendum kærkomið tækifæri til að sveifla fánanum og veifa í myndavélina. Önnur lönd gáfu laginu töluvert lægra eða ekkert stig. Eins fengum við einungis stig frá Norðurlöndunum árið eftir, árið 2001 þegar Ísland lenti í síðasta sæti með lagið Angel en þá má segja að Danmörk og Noregur hafi bjargað æru okkar með því að gefa okkur eitt og tvö stig hvort svo við fórum ekki stigalaus úr þeirri keppni. Í ár eru Íslendingar óneitanlega öruggari en oft áður með að komast upp úr undankeppninni en auðvitað er ekkert tryggt í þeim efnum. Þá er gott að vita af Finnum í okkar riðli enda hafa Finnar orð á sér fyrir að vera opnari fyrir harðari tónlist en margir aðrir, en þeir sigruðu keppnina eins og flestir muna með þungarokksveitinni Lordi þegar Hard Rock Halelujah tryllti Evrópu.

Norðurlöndin hafa annars á heildina litið sig nokkuð vel í Eurovision. Svíþjóð hefur samtals unnið sex sinnum og þykja nokkuð sigurstrangleg í ár. Norðmenn og Danir hafa sigrað þrisvar þrisvar og Finnar einu sinni. Íslendingar hafa þó eins og alþjóð veit aldrei borið sigur úr bítum. Nú þegar styttist í undankeppnina er kjörið að líta á framlög frændfólks okkar frá Skandinavíu. Yrkisefni Skandinava er af ýmsum toga í þetta skipti en má þar nefna misskiptingu auðs, loftslagsbreytingar, ást, útskúfun og hatur. Björg Magnúsdóttir ræddi við norrænu flytjendurna í Menningunni og spurði út í lögin þeirra í ár.

Tom Hugo Hermansen annar söngvari norska framlagsins í ár segir lag þeirra Spirit in the sky fjalla um mikilvægi þess að sætta sig við orðinn hlut. „Það sækir innblástur í forna samíska trú að allir eigi sér verndara sem liðsinnir í erfiðu hlutunum.“ Í laginu jógar norsk samíski rapparinn Fred Buljo að ævafornum sið. „Mig hefur dreymt um þetta síðan ég var lítil,“ segir Alexandra Rotan söngkona lagsins. „Mig dreymdi að fá að vera með í keppninni og nú erum við mætt.“ Norðmenn eru þjóðlegir í ár með hresst popplag um yfirnáttúruleg fyrirbæri.

„Love is forever heitir lagið okkar og merking lagsins er að ástin er yndisleg og ævarandi sem flýgur með alla þvert yfir öll landamæri,“ segir Leonora Colmor Jepsen söngkona danska lagsins. Hún segir ástina ætíð til staðar hjá fólki og alltaf hægt að treysta á hana. „Þó maður sé leiður er ástin á sínum stað.“ Aðspurð hvort ástin eða hatrið sigri segir hún að þessi fyrirbæri séu bæði langlíf, en hún taki þó ást fram yfir hatur. Myndbandið er sykursætt og lagið einnig.

Sebastian Rejman sem flytur lag Finnlands segir lagið hafa komið til sín á ferðalagi sínu um Indland. „Fyrir ári síðan var ég á ferðalagi um Indland, í Delhi. Það hljómar kannski klisjukennt en stéttaskiptingin sló mig. Fjölskyldur búa þröngt en við sömu götu eru 5 stjörnu veitingahús. Slíkt gerist auðvitað víða um heim en þarna var það áberandi.“ Sebastian segist hafa sest niður við píanóið strax við heimkomu og samið lagið. Hann segir lagið þó ekki vera pólitískt þó það fjalli meðal annars um hlýnun jarðar. „Lagið er opið fyrir túlkun. Hnattræn hlýnun varðar allan heiminn ekki bara stjórnmálin.“ Það er hinn finnski Darude sem semur lagið með Sebastian en Darude er án efa þekktasti lagahöfundur Skandinavíu í ár. Hann samdi lagið Sandstorm sem kom út árið 2000 og þaut upp alla vinsældarlista.

John Lundvik var í þriðja sæti í undankeppninni í Svíþjóð í fyrra en í ár sigraði hann og er lagi hans Too late for love spáð góðu gengi í keppninni hið ytra. John segir heiti lagsins vera þveröfugt við innihald þess. „Ég myndi segja að það er aldrei of seint að elska en titillinn segir að nú sé það of seint. Það er snúningur á þessu,“ segir John sem líkt og danska söngkonan er yfirlýstur stuðningsmaður ástarinnar. „Sem listamaður sem ég og syng með hjartanu. Ég hef lengi fengist við lagasmíðar og núna er ég tónlistarmaður í fullu starfi. Það er draumur sem rættist.“

Lagið syngur John með hópi gospel söngkvenna sem kalla sig „the mamas“ eða mútturnar. „Ég hringdi til París og bað um fjórar bestu söngkonur borgarinnar,“ segir John um tilurð samstarfsins.  „Kallinu var fljótlega svarað með innkomu The Mamas.“


Björg Magnúsdóttir ræddi við norrænu flytjendurna í Tel Aviv. Viðtölin má heyra og sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Tími til að heilla heimsbyggðina

Popptónlist

Hatari óttast að ganga of langt

Menningarefni

Frá Gleðibankanum til Hatara

Popptónlist

Áhuginn á Hatara einsdæmi í sögu Íslendinga