Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Traustir vinir í nýju landi

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Það er gefandi að aðstoða fólk og kynnast því á persónulegum nótum, segir Svala Jónsdóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún hefur verið leiðsögumaður fjölskyldu frá El Salvador í eitt ár. Þau segja hjálpina hafa skipt sköpum, enda hafi Svala aðstoðað þau við að finna bæði vinnu og íbúð.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins sem aðstoða flóttafólk eru kallaðir leiðsögumenn, enda eru þeir nokkurs konar leiðsögumenn í daglega lífinu í nýju landi sem getur verið framandi. Svala kynntist Yeni Espinoza og börnum hennar tveimur, Jonatan Javier Lopez og Cindy Vanessu Lopez, eftir að þau fengu alþjóðlega vernd hér á landi. Það er hægara sagt en gert að læra allt sem þarf að læra í nýju landi, hvort sem það er að að taka strætó eða gera skattaskýrsluna.

Mynd með færslu
Cindy Vanessa Lopez og Svala Jónsdóttir Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

„Ég mæli með þessu verkefni. Ég hef verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í tveimur öðrum verkefnum, í heimanámsaðstoð og svo með alþjóðlega foreldra. En þetta er svona kannski persónulegra, að vera að hjálpa einni fjölskyldu, og þú kynnist fólki á svona persónulegum nótum þannig að það er mjög skemmtilegt og gefandi,“ segir Svala.

Þau kynntust í gegnum Rauða krossinn sem sér um að para saman leiðsögumenn og fólk sem flúið hefur til landsins. „Það er gaman að kynnast nýju fólki og ég held að þau séu snillingar þarna í Rauða krossinum að para saman fjölskyldur af því að við bara smullum strax saman. Það var mjög gaman hjá okkur. Maður er bara búinn að eignast nýja vini.“ Svala segir að það hafi síður en svo verið skrítið að eignast vini sem einhver annar valdi fyrir hana. Sjálf hafi hún búið í útlöndum og þegar hún var í háskólanámi í Bandaríkjunum átti hún stuðningsfjölskyldu.  

Mynd með færslu
Yeni Espinoza Quiteno. Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Yeni segir að það hafi ekki verið auðvelt að yfirgefa heimalandið og koma til Íslands. Þau komu til landsins og sóttu um hæli og fengu jákvætt svar eftir fimm mánaða bið. Hún segir að Útlendingastofnun hafi reynst þeim afar vel þann tíma er þau voru að bíða. Þegar þau hafi svo fengið jákvætt svar um áframhaldandi dvöl hér á landi hafi þau kynnst Svölu. Hún hafi hjálpað þeim öllum að finna vinnu og íbúð, auk þess að vera góð vinkona þeirra. Yeni er ánægð með stöðu fjölskyldunnar í dag. Þau hafi öll vinnu og sjálf vinni hún í skóla og kunni mjög vel við sig þar enda elski hún börn, þau séu líka mjög góðir íslenskukennarar. 

Mynd með færslu
Jonathan Javier Lopez. Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Fjölskyldan var í hættu í heimalandinu, El Salvador. Þar er algengt að glæpagengi ráðist á bæði almenning og lögreglu og myrði. Náinn ættingi fjölskyldunnar er háttsettur innan lögreglunnar og því voru þau í hættu. Jónatan segir að lífið á Íslandi sé mjög ólíkt, enda þurfi þau ekki að óttast um líf sitt. Þar sem þau bjuggu áður hafi ekki verið óhætt að ferðast á milli bæja eða hverfa með strætó, vegna hættu á árás. Hann vinnur í dag hjá Motormax og lítur framtíðina björtum augum. Cindy, systir hans, var í námi í heimalandinu. Nú vinnur hún við sorphirðu í Reykjavík og langar að læra til kokks í framtíðinni og jafnvel að starfa sem flugfreyja. Fyrst ætlar hún sér að ná góðum tökum á íslensku. „Ég tel að hérna séu mörg tækifæri fyrir mig til náms því að þetta er gott land,“ segir Cindy.

Jón Óskar, sex ára gamall sonur Svölu, lætur sig aldrei vanta þegar þau hittast enda eru þau öll orðin góðir vinir. „Hann er eiginlega alltaf með,“ segir Svala. Þegar við byrjuðum að hittast þá hittumst við alltaf á bókasafni og þá var hann að dunda sér, svo ætlaði ég einhvern tíma að setja hann í pössun í Kringlunni þegar við hittumst þar en þá langaði hann bara vera með líka. Hann hafði frumkvæði að því að bjóða þeim í afmælið sitt, hann vildi að þau kæmu. Þannig að honum finnst gaman að koma og hitta þau.“ 

Mynd með færslu
Nína Helgadóttir, teymisstjóri flóttafólks hjá Rauða krossinum.  Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Nýlega fluttu hópar kvótaflóttafólks á Hvammstanga og Blönduós og því höfðu sjálfboðaliðar þar í nægu að snúast síðustu dagana. Nína Helgadóttir, teymisstjóri flóttamannamála hjá Landsskrifstofu Rauða krossins, segir að sjálfboðaliðarnir leiki stórt hlutverk við móttöku flóttafólks. Til dæmis við að finna húsmuni, hlý föt og fleira þegar kvótaflóttafólk er væntanlegt og svo seinna meir sem leiðsögumenn, eins og Svala. Bæjaryfirvöld í Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi ætla í byrjun september að taka á móti flóttafólki og því vantar sjálfboðaliða þar.

Hvað hefur Rauði krossinn í huga þegar verið er að para fólk saman?
„Við reynum auðvitað að horfa á ef það eru barnafjölskyldur að það sé þá fólk sem er helst með börn sem að við pörum saman við þannig að þau hafi svona álíka reynsluheim, búi í sveitarfélaginu auðvitað þekki sitt nærumhverfi og mögulega hafi svipuð áhugamál en það er ekki nauðsynlegt. Við erum að vonast til að fólk tengi nýju íbúana þá inn í þær tómstundir eða áhugamál eða hvað það er sem þau hafa áhuga á að tengjast inn í.“  

Nína segir brýnt að gleyma því ekki að flóttafólk komi úr erfiðum aðstæðum og hafi sýnt mikla þrautseigju. „Við megum ekki gleyma því að fólkið hefur bæði mikla styrkleika sem að er vert að huga að og byggja á og það er ótrúlega mikið skref að taka að ákveða að flýja að heiman frá sér og koma á svona fjarlægan stað eins og Ísland er. Þannig að fólk hefur sýnt mikla útsjónarsemi og úthald, hefur verið á flótta jafnvel árum saman og búið við kröpp kjör. Þetta eru engir aukvisar sem við erum að fá hingað. Gleymum því ekki.“

Myndataka: Vilhjálmur Þór Guðmundsson, Kristinn Þeyr Magnússon og Þór Ægisson.

Klipping: Viðar Hákon Gíslason

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir