Toronto í sögubækurnar

Toronto Raptors fans react as they watch Game 6 of the NBA basketball Eastern Conference finals between the Toronto Raptors and Milwaukee Bucks, on a screen outside Scotiabank Arena, in Toronto on Saturday, May 25, 2019. (Chris Young/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP

Toronto í sögubækurnar

26.05.2019 - 03:39
Leikmenn Toronto Raptors skráðu nafn félagsins í sögubækurnar í nótt eftir 100-94 sigur gegn Milwaukee Bucks í úrslitaleik Austurdeildar NBA deildarinnar. Félagið er komið í úrslit NBA deildarinnar í fyrsta sinn, og er jafnframt fyrsta kanadíska félagið til að leika til úrslita um NBA titilinn.

Leikur liðanna var æsispennandi í nótt. Gestirnir frá Milwaukee, sem voru með besta árangur allra liða í deildarkeppninni, réði lögum og lofum til að byrja með og var 13 stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. Liðið hélt góðri forystu framan af öðrum leikhluta en heimamenn sóttu á undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í sjö stig, 50-43. Áfram héldu gestirnir góðu róli í þriðja leikhluta og náðu mest 15 stiga mun seint í leikhlutanum, en að honum loknum var munurinn fimm stig. 

Fjórði leikhlutinn var svo alfarið á valdi heimamanna í Toronto. Þeir náðu forystunni í leiknum snemma í fjórða leikhluta, og létu hana aldrei af hendi, þrátt fyrir ágæt áhlaup gestanna. Toronto vann einvígi liðanna 4-2 og mætir meisturum Golden State Warriors í úrslitaeinvíginu. 

Kawhi Leonard átti enn einn stórleikinn fyrir Toronto. Hann skoraði 27 stig og tók 17 fráköst, auk þess gaf hann 7 stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og varði tvö skot. Pascal Siakam skoraði 18 stig og Kyle Lowry skoraði 17. Giannis Antetokounmpo fór fyrir liði gestanna með 21 stig og 11 fráköst. hann gaf auk þess 4 stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og varði þrjú skot. Brook Lopez skoraði 18 stig og tók 9 fráköst.

Úrslitaeinvígi Golden State og Toronto hefst á heimavelli Golden State aðfaranótt föstudagsins 31. maí.