Toronto einum sigri frá titlinum

epa07634227 Toronto Raptors player Pascal Siakam (C) of Cameroon goes against Golden State Warriors players Andre Iguodala (L) and Draymond Green (R) during the NBA Finals game four between the Toronto Raptors and the Golden State Warriors at Oracle Arena in Oakland, California, 07 June 2019.  EPA-EFE/JOHN G MABANGLO SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Toronto einum sigri frá titlinum

08.06.2019 - 04:05
Toronto Raptors er aðeins einum sigri frá NBA meistaratitlinum í körfubolta eftir 105-92 sigur gegn Golden State Warriors á útivelli í nótt. Liðið hefur nú unnið þrjá leiki í einvíginu, þar af báða leikina á heimavelli Golden State, en ríkjandi meistarar hafa aðeins unnið einn leik. 

Heimamenn leiddu leikinn til að byrja með og náðu mest 11 stiga forystu í fyrsta leikhluta. Gestirnir frá Toronto voru aldrei langt undan og munaði aðeins fjórum stigum á liðunum í hálfleik, 46-42 fyrir Golden State. Þriðji leikhluti var jafn og spennandi framan af, en undir lok hans náði Toronto yfirhöndinni og leiddi með tíu stigum að honum loknum. Þeir héldu öruggri forystu allt til leiksloka, og geta tryggt sér fyrsta titil félagsins í næsta leik, á heimavelli sínum í Toronto aðfaranótt þriðjudags. 

Kawhi Leonard átti enn einn stórleikinn fyrir Toronto, skoraði 36 stig, tók 12 fráköst og stal boltanum fjórum sinnum af leikmönnum heimamanna. Serge Ibaka kom sterkur af bekknum með 20 stig, og Pascal Siakam skoraði 19 stig.
Í liði heimamanna voru þeir Klay Thompson og Stephen Curry stigahæstir, eins og oft áður. Thompson skoraði 28 stig og Curry 27.