Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tónlist Ólafs send tólf ljósár út í geiminn

Mynd með færslu
 Mynd: Sónar - Ólafur Arnalds

Tónlist Ólafs send tólf ljósár út í geiminn

17.11.2017 - 09:51

Höfundar

Tónverk eftir Ólaf Arnalds var í dag sent af stað til plánetunnar GJ273b en talið er að þar gæti mögulega verið líf. Plánetan er 12,4 ljósár frá jörðu og munu útvarpsbylgjurnar berast þangað eftir 12 ár og 145 daga. Verk Ólafs mun ná til íbúa plánetunnar, ef einhverjir eru, þann 3. nóvember árið 2030, sem er einmitt afmælisdagur Ólafs.

Tónlistarhátíðin Sónar sem haldin er árlega í Barcelona, en hefur einnig verið haldin í Reykjavík undanfarin ár, fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli sínu. Haldið er upp á það með nokkuð sérstökum hætti; með því að reyna að komast í samband við líf á annarri plánetu. Nánar tiltekið á plánetunni GJ273b, með því að senda skilaboð og tónlist þangað með útvarpsbylgjum.

Verkefnið Sónar Calling GJ273b, inniheldur tíu sekúndna langar tónsmíðar eftir 33 listamenn sem eru sérstaklega útsettar fyrir íbúa plánetunnar. Meðal listamanna sem semja tónverkin eru auk Ólafs, Jean Michel Jarre, Holly Herndon, Modeselektor, Matmos, Autechre og fleiri. Í fyrsta hluta verkefnisins voru sendar tónsmíðar eftir 18 listamenn í þremur hlutum frá Tromsö í Noregi. Seinni hlutinn verður sendur út í apríl á næsta ári.

Verk Ólafs heitir Stratus 1 og var sent út í nótt. „Mig langaði að varpa hugmyndinni um kyrrð og fegurð út í geiminn. Ef til vill ekki mest áberandi eiginleikar mannkynsins en eitthvað sem mér finnst mikilvægt að breiða út. Þegar maður hugsar um að semja tónlist fyrir líf á annarri plánetu er auðvelt að falla í þá gryfju að reyna að tala þeirra tungumál – en ég kaus að tala mitt eigið tungumál,“ segir Ólafur. Tónverkið má heyra hér fyrir neðan.