Töluvert borið á gistingu í Vaðlaheiðargöngum

24.03.2020 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Töluvert hefur borið á því í vetur að erlendir ferðamenn á litlum húsbílum leiti skjóls yfir nótt í Vaðlaheiðargöngum. Framkvæmdastjóri ganganna segist hafa fullan skilning á háttalaginu.

Leita skjóls í vondum veðrum

Þó að fáir ferðamenn séu á ferli um þessar mundir hefur þeim sem ferðast um á litlum húsbílum fjölgað hratt síðustu misseri. Undanfarna mánuði hefur borið töluvert á því að slíkum bílum sé lagt inni í Vaðlaheiðargöngum yfir nótt. 

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga segir líklegt að ferðamenn sem dvelja í göngunum séu að flýja vont veður. „Ég held þetta sé nú aðallega það að veðrið fyrir utan, hvað eigum við segja, það er ekki mjög þægilegt að gista fyrir utan í þessu veðurfari sem er búið að vera fyrir norðan þessa dagana,“ segir Valgeir.

Þó að Valgeir hafi fullan skilning á því að ferðamenn leiti inn í göngin í vondum veðrum þá mælir hann ekki með því. Því þó að loftið sé hlýtt getur það verið töluvert mengað. 

„Eins og ég segi alltaf: Það er alltaf gott veður á Akureyri. Bara spurning hvar þú ert en hérna inni í göngunum þá erum við alltaf með um 20 gráður, hita og þurrt.“

Skidu eftir óvæntan glaðning

Þeir ferðamenn sem gist hafa í göngunum eiga það til að skilja eftir sig rusl og annan úrgang. 

„Það hefur komið glaðningur í kassa, það var skilinn eftir hérna vínkassi sem að, ja við héldum að þarna hefði kannski einhver gleymt vínkassa en það var ekki vínkassi. Það var bara morgungleðin hjá einhverjum úr sendibílnum.“