Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Töluverðar líkur á að fuglaflensa berist

23.03.2017 - 15:35
Mynd með færslu
Japanskir vísindamenn taka blóðsýni úr sýktri hænu Mynd: EPA
Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið. Matvælastofnun segir töluverðar líkur á að alvarlegt afbrigði fuglaflensuveirunnar berist hingað til lands með farfuglum sem farnir eru að streyma til landsins. Ekki er talið að fólk geti smitast.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út tímabundnar varúðarreglur vegna fuglaflensu. Þær eiga að tryggja að villtir fuglar komist ekki í snertingu við alifugla. Þess vegna er lögð áhersla á að alifulgar séu í yfirbyggðum gerðum eða húsum og að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum. Þetta er gert vegna fuglaflensu af völdum H5N8 sem breiðst hefur hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári. Bæði villtir fuglar og alifuglar hafa orðið flensunni að bráð á slóðum þar sem íslenskir farfuglar halda sig.

Matvælastofnun segir í tilkynningu að starfshópur sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis hafi metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að alvarlegt afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglum sem nú eru farnir að streyma til landsins.  Ef fuglaflensa greinist á búi þarf að aflífa alla fugla á búinu, auk þess sem ýmsar takmarkanir verða lagðar á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Fram kemur að ekki sé talin vera smithætta fyrir fólk af þessu afbrigði fuglaflensuveirunnar og að ekki stafi smithætta fyrir fólk af neyslu afurða úr alifuglum. Óvíst sé hvað aukið viðbúnaðarstig muni vara lengi, en starfshópurinn meti smithættuna reglulega. 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV