Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Töluverð uppbygging við Snæfellsjökul

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull fékk 234,5 milljónir krónur úthlutaðar frá Landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir árin 2018-2021. Þetta bætist við framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamála. Átroðningur ferðamanna hefur aukist mikið á síðustu tíu árum.

Um 370 milljónir fara til Vesturlands úr Landsáætlun og Framkvæmdasjóði ferðamála samanlagt. Af þeim fara um 260 milljónir í uppbyggingu á Snæfellsnesi og þá rúmar 230 milljónir til þjóðgarðs. Þessi fjárveiting bætist við það sem sveitarfélög hafa þegar staðið fyrir. Umferð hefur aukist mikið og er talið að ferðamönnum sem fara um þjóðgarðinn Snæfellsjökul hafi fjölgað úr hundrað þúsund í um hálfa milljón frá 2009.

„Við finnum vel fyrir umferðarþunganum. Það hafa komið tímabil á Djúpalónssandi þar sem hafa verið umferðaröngþveiti og landvörður hefur þurft að fara og stjórna umferðinni til að hjálpa rútum að komast í burtu og annað,“ segir Linda Björk Hallgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Snæfellsjökli þjóðgarði.

Uppbygging tryggir verndun staðanna sem og öryggi þeirra sem um þá fara. Þá hafði Snæfellsbær þegar kostað gerð göngustíga, útsýnispalla og aðstöðu víða við og í kringum þjóðgarðinn. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, segir fjármögnun frá Framkvæmdasjóði ferðamála hafa komið uppbyggingu á skrið.

„Um leið og við fengum fjármagn til að byggja upp göngustígana þá hætti þetta að vera forarsvað heldur bara fallegir göngustígar sem fólk heldur sig á,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Arkís - Aðsend mynd
Þjóðgarðsmiðstöðin er hönnuð af Arkís hönnunarstofu

Þó veitist ekki fjármagn í byggingu Þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Framkvæmdir við hana hafa beðið í um þrettán ár, frá því hönnunarsamkeppni var sett af stað árið 2006. Fyrsta skóflustunga var þá tekin af Sigrúnu Magnúsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, árið 2016.

Frá skóflustungu hafa gatnaframkvæmdir og grunnvinna farið fram. Í ár var fjármögnun talið lokið og verkið því boðið út. Öll tilboð fóru þó fram úr kostnaðaráætlun og því ekki hægt að gera verkkaup. Framkvæmdasýsla ríkisins skoðar nú næstu skref.

Fréttin hefur verið uppfærð. Skýrt er betur frá fjárveitingu frá Landsáætlun um uppbyggingu innviða annars vegar og Framkvæmdasjóði ferðamála hins vegar.