Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tollstjóri skipaður skattstjóri án auglýsingar

01.06.2018 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Snorri Olsen tollstjóri hefur verið skipaður nýr ríkisskattstjóri frá og með 1. október næstkomandi. Það er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem skipar Snorra í embættið. Það var ekki auglýst laust til umsóknar, heldur nýtti ráðherra sé heimild í lögum um opinbera starfsmenn til að flytja starfsmenn úr einu embætti í annað, samkvæmt upplýsingum frá Elvu Björk Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Skúli Eggert Þórðarson hefur gegnt embætti ríkisskattstjóra síðan haustið 2006 en Alþingi kaus hann í embætti ríkisendurskoðanda í apríl. Þá tók Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri við embætti ríkisskattstjóra og mun gegna því þar til Snorri tekur við í haust.

Snorri er lögfræðingur að mennt og hefur verið tollstjóri frá 1. október 1997. Hann gegndi meðal annars starfi skrifstofustjóra á sviði skattamála í fjármálaráðuneytinu á árum áður og var settur ríkisskattstjóri á árunum 1995 til 1997.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að gert sé ráð fyrir að embætti tollstjóra verði auglýst að loknum sumarleyfum.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV