Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tollalaus dömubindi og snakk - kassavín hækka

03.12.2015 - 20:42
Mynd með færslu
Willum Þór Þórsson er flutningsmaður nefndarálits efnahags-og viðskiptanefndar. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Meirihluti efnahags-og viðskiptanefndar leggur til að tollar á dömubindi og tíðatappa verði felldir niður 1. janúar. Nefndin vill þannig bregðast við gagnrýni á skattlagningu þessara vara sem hún telur að eigi rétt á sér. Meirihlutinn leggur enn fremur til að tollar á snakk verði felldir niður - þeir hafa verið 59 prósent. Þetta kemur fram í nefndaráliti nefndarinnar við „bandorminn“. Þar segir enn fremur að með lækkun áfengisgjaldsins muni 1.943 vörunúmer af 2.668 hjá ÁTVR lækka í verði.

Ekki kemur fram í nefndarálitinu hversu miklir tollar eru lagðir á dömubindi og tíðatappa.

Willum Þór Þórsson, framsögumaður nefndarálitsins, treysti sér ekki til að segja nákvæmlega fyrir um hverjir tollarnir væru en sagði að þeim í nefndinni hefði  fundist við hæfi að fella niður tolla á þessa vöru. Hann sagðist vera fylgjandi því að færa vörurnar niður í lægsta eins og nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt til. 

RÚV greindi frá því í september að konur greiði um 230 þúsund krónur í skatt á ævinni í virðisaukaskatt af þessum vörum.

Kanadíska þingið felldi virðisaukaskattinn alveg niður í sumar. „Í þessu tilviki er náttúrulega klárlega um að ræða líffræðilegt hlutverk kvenna sem karlar hafa ekki. Það eru bara konur sem fara á blæðingar. Þess vegna er þetta skattur sem konur borga umfram karla, þeir þurfa aldrei að borga þennan skatt,“ sagði Katrín Guðmundsdóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu um kynjaða fjárlagagerð.

Á snakk hefur verið lagður 59 prósent tollur en gangi tillögur efnahags-og viðskiptanefndar eftir verður hann úr sögunni um áramótin. Tollurinn hefur verið umdeildur í meira lagi - þrjú fyrirtæki fóru í mál við íslenska ríkið vegna tollsins þar sem þau töldu hann ekki samræmast kröfu um málefnalega skattheimtu hins opinbera. Héraðsdómur Reykjavíkur var á annarri skoðun og taldi hann löglegan.

Í nefndarálitinu eru áhrif þess rakinn að lækka áfengi í neðra virðisaukaskattþrep - úr 24 prósentum í 11 prósent. Af 2.668 vörunúmerum hjá ÁTVR munu 1.943 lækka og 725 hækka. Fram kemur í álitinu að ódýrara léttvín og kassavín hækkar í verði en dýrara vín lækka líkt og sterkt vín.  Mesta verðhækkunin er tæp 8 prósent en mesta lækkunin er 13 prósent.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV