Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tólf ný ebólusmit í Kongó á hverjum degi

15.07.2019 - 20:10
Mynd: RÚV / RÚV
Yfir 1600 hafa látist í ebólufaraldri í Kongó og 12 ný tilfelli greinast á hverjum degi. Smit hefur greinst í nágrannaríkinu Úganda og Magna Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur þar, segir tilfellum fjölga jafnt og þétt.

Þangað til í gær hafði smitið að mestu verið bundið við dreifbýl svæði. En eftir að smit greindist í borginni Goma er óttast að faraldurinn eigi eftir breiðast yfir til Rúanda en hann hefur þegar náð yfir landamærin til Úganda. Magna Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur er í Úganda á vegum Rauða krossins þar sem hún aðstoðar við að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins. „Ég fór að landamærunum þar sem er bara ein lítil á sem í rauninni skilur að, maður stendur og horfir yfir á grasið hinum megin og þar er Kongó. Og það er gífurleg hreyfing á fólki, allt upp í yfir 20 þúsund manns á dag bara í einu héraði sem eru að fara fram og til baka,“ segir Magna. 

Flókið og erfitt verk

Hún segir það flókið og erfitt verk að reyna að ná tökum á sjúkdómnum. Þegar smit uppgötvast þarf að fylgjast með hverjum einasta sem hefur komist í beina snertingu við smitaða manneskju í þrjár vikur. „Eitt dæmi er kona sem hafi greinst með ebólu og hún fór um 500 kílómetra upp að landamærum Suður-Súdan og á leiðinni hafði hún komist í beina snertingu við 200 manns sem þurfti að fylgja eftir og það er bara einn einstaklingur.“

epa07719181 A worker of the Democratic Republic of Congo Health Ministry in Goma, DR Congo, 05 July 2019 (issued 15 July 2019). DR Congo has confirmed the first case of Ebola in the eastern city of Goma. According to reports, an evangelist pastor was tested positive after arriving by bus to Congo's major transport hub Goma on Sunday 14 July 2019.  EPA-EFE/PATRICIA MARTINEZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Unnið er hörðum höndum að því að ná tökum á útbreiðslu sjúkdómsins.

Magna segir ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af því að smit hafi greinst í borginni Goma í gær. „Miðað við hvernig ástandið er og hvað það hefur verið erfitt að ná í halann á útbreiðslunni ef ég get orðað það þannig að þá er þetta eitthvað sem að við höfum virkilega áhyggjur af. Þetta er gífurlega fjölþætt og oft á tíðum mjög flókið og í Kongó sérstaklega af því þar eru átök, þar er óstabílt ástand, það er erfitt að komast að fólkinu,“ segir hún. 

Fjöldi alþjóðasamtaka fundaði um ástandið í Genf í dag, þar var tekið undir áhyggjur Mögnu. „Rétt um það bil sem við erum að ná tökum á veirunni á einu svæði brýst hún fram á öðru. Átökin og rósturnar grafa undan úrræðum okkar. Við glímum við eina hættulegustu veiru veraldar í hættulegasta heimshluta jarðar,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.