Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tólf fjölmiðlamenn boðaðir til skýrslutöku

04.11.2017 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Tólf starfsmenn þriggja fjölmiðla hafa verið boðaðir til skýrslutöku hjá Héraðssaksóknara vegna rannsóknar embættisins á gagnaleka úr Glitni. Þetta eru starfsmenn Ríkisútvarpsins, Stundarinnar og 365 miðla. 

Embætti Héraðssaksóknara rannsakar gagnaleka úr Glitni á grundvelli tveggja kæra sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt fram. Fyrri kæran er frá því í febrúar og er tilkomin vegna umfjöllunar Kastljóss og fjölmiðla 365 um viðskipti og hlutabréfaeign hæstaréttardómara fyrir hrun. Seinni kæruna lagði FME fram eftir að Stundin og RÚV fóru að fjalla um viðskipti forsætisráðherra og fólks sem hann tengdist sem áttu sér stað fyrir hrun. Héraðssaksóknari sagði í samtali við RÚV í síðasta mánuði að málin yrðu að öllum líkindum sameinuð. 

Héraðssaksóknari segist ekki geta tjáð sig um rannsóknina að öðru leyti en því að hún er í gangi. Fréttastofa hefur þó upplýsingar um að allavega tólf fjölmiðlamenn hafa verið boðaðir til skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara. Sumir eru búnir í skýrslutökum en aðrir hafa verið boðaðir til skýrslutöku á næstunni. Þetta eru fjórir starfsmenn fréttastofu RÚV, fimm starfsmenn fjölmiðla 365 og þrír starfsmenn Stundarinnar.

Glitnir HoldCo, þrotabú Glitnis, fékk í síðasta mánuði samþykkt lögbann á fréttaflutning Stundarinnar sem byggir á gögnum úr Glitni. Staðfestingarmál Glitnis gegn Stundinni vegna lögbannsins var þingfest í vikunni. Kjarninn fjallaði á dögunum um hverjir hefðu haft innherjaupplýsingar í Glitni fyrir hrun og hvernig viðskiptum þeirra hefði verið háttað. Næsta dag barst fjölmiðlinum bréf frá lögmanni Glitnis HoldCo. Þar var því haldið fram að óheimilt væri að byggja umfjöllun á gögnum úr Glitni og þess óskað að fjölmiðillinn upplýsti hvort hann hygði á frekari birtingar úr gögnunum og léti vita með tveggja daga fyrirvara áður en hann birti slíka umfjöllun. Fréttastofa RÚV fékk samskonar bréf í síðasta mánuði eftir umfjöllun sína um viðskipti forsætisráðherra fyrir hrun. Í báðum bréfum segir að Glitnir HoldCo áskilji sér rétt til að grípa til aðgerða vegna birtinga sem byggi á gögnum úr Glitni.