Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tólf ferðamenn leita réttar síns: „Þetta hverfur ekki“

09.01.2020 - 19:11
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það gæti tekið ferðamennina sem lentu í hrakningum við Langjökul mörg ár að jafna sig, segir Ástrali sem lenti í sambærilegu atviki fyrir þremur árum. Að minnsta kosti tólf úr hópnum hafa leitað réttar síns. Ferðamennirnir skrifuðu undir skjal þar sem fram kom að þeir gerðu sér grein fyrir þeim hættum sem fylgdu ferðinni.

Bjarga þurfti um 40 ferðamönnum við Langjökul í fyrrinótt, eftir að þeir lentu í hrakningum í vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland. Einhverjir ferðamannanna óttuðust um líf sitt og barna sinna, sumir fengu kalsár, þar á meðal börn. 

Samkvæmt upplýsingum frá Mountaineers of Iceland hefur fyrirtækið haft samband við nánast alla ferðamennina. Þá hafa þeir allir fengið ferðina endurgreidda. Að sögn Ferðamálastofu hefur fyrirtækið sent stofnuninni gögn um hvað gerðist, og mun stofnunin fara yfir þau á næstu dögum.

Trúðu þessu ekki

Mountaineers of Iceland biður alla þá sem fara í vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins að skrifa undir skjal áður en lagt er í hann. Á meðal þess sem þar kemur fram er að viðkomandi geri sér grein fyrir því að ferðin geti verið hættuleg. Þá geri undirritaðir sér grein fyrir því að fyrirtækið beri aðeins ábyrgð á slysum sem verði vegna galla í búnaði, eða vegna rangrar notkunar starfsmanna á þeim búnaði. 

Guðmundur Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sagði í hádegisfréttum að svona skjal geti haft gildi upp að vissu marki. Það þýði þó ekki að fyrirtæki geti firrt sig ábyrgð, ef háttsemi þeirra hefur verið verulega aðfinnsluverð. Guðmundur segir ljóst að ferðamennirnir gætu átt rétt á miska- eða skaðabótum. Og nokkrir þeirra hafa þegar ákveðið að leita réttar síns. Lilja Margrét Olsen, lögmaður, sagði í samtali við fréttastofu í dag, að hún sé þegar farin að vinna að bótakröfum fyrir tíu þeirra sem voru í ferðinni, og að hún eigi von á að heyra í fleirum. Þá er lögmannsstofan Norðdahl & Valdimarsson að vinna fyrir tvo ferðamenn.

Áströlsku hjónin David og Gail Wilson, sem unnu dómsmál gegn fyrirtækinu eftir að hafa lent í sambærilegu atviki fyrir þremur árum, fréttu fljótlega af atburðunum í fyrradag.

„Við trúðum þessu ekki, í alvöru talað. Við héldum að eftir dómsmálið, eftir að dómarinn lét fyrirtækið heyra það, að fyrirtækið hefði hugsað sig tvisvar um áður en það færi út í svona nokkuð. Við trúðum ekki að það hefði stofnað ferðamönnum í hættu aftur,“ segir David Wilson.

Hélt að hún myndi deyja

Wilson segir að þau hjónin séu enn að jafna sig á því sem gerðist. Þau hugsi stöðugt um það og hafi bæði þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar.

„Við vorum bæði greind með áfallastreituröskun. Gail hélt að hún myndi deyja á jöklinum. Það lék enginn vafi á því í hennar huga. Það hefur tekið hana langan tíma að jafna sig á þessu.“

Wilson segir að það hafi verið þeim hjónum mikill léttir að vinna dómsmálið, en nýjustu fréttir frá Íslandi ýfi upp sárin.

„Þetta snýst heldur ekki bara um okkur. Þetta voru 39 ferðamenn og við finnum til með þeim. Það sem við höfum glímt við þurfa þeir að glíma við næstu ár. Við kennum í brjósti um þetta fólk. Þetta hverfur ekki, Jóhann. Alls ekki,“ segir Wilson.