Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Töldu sig fylgja reglum um akstursþjónustu

09.01.2018 - 12:42
Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð þjónusta stofnanir Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð þjónusta stofnanir
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Bæjarstjórinn í Vesturbyggð segir að það sé forgangsmál að ríkisvaldið setji skýrar reglur um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Sveitarfélagið taldi sig fylgja reglum um aksturþjónustu en umboðsmaður Alþingis segir að það hafi brotið lög.

Óheimilt að takmarka akstursþjónustu

Kastljós greindi frá því í gær að Vesturbyggð hefði verið óheimilt að takmarka akstursþjónustu fyrir fatlaða konu við tiltekna félagsmiðstöð í bænum, að mati Umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður telur málsmeðferð sveitarfélagsins og úrskurðarnefndar velferðarmála hafa farið í bága við lög um réttindi fatlaðs fólks.

Hefði viljað fá andmælarétt

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, telur að það hefðu verið vandaðri stjórnsýsluhættir að veita sveitarfélaginu andmælarétt í þessu tiltekna máli vegna þess að það voru reglur sveitarfélagsins sem voru til umfjöllunar. Þess má geta að umboðsmaður Alþingis leitaði álits úrskurðarnendar velferðarmála.

Þörf á skýrari reglum

Ásthildur segir ljóst að sveitarfélög þurfi skýrari reglur til að vinna eftir, eins og og kemur fram í mati umboðsmanns, en Vesturbyggð hafi starfað eftir áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga: „Það er þá náttúrulega algjört forgangsmál að ríkisvaldið setji þær reglur sem að sveitarfélagið getur starfað eftir. - Við töldum okkur vera að starfa eftir ramma laganna og það var staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála en umboðsmaður segir núna eitthvað allt annað.“

Fordæmisgefandi

Svo virðist sem úrskurðarnefnd velferðarmála hafi þegar breytt viðmiðum sínum. Nýlega fjallaði fréttastofa um mál blindrar konu í Eyjafjarðarsveit. Úrskurðarnefndin taldi að sveitarfélaginu hefði ekki verið heimilit að synja konunni um akstursþjónustu.