Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tókust á um hvort leyfa ætti vitnaleiðslumál

17.12.2018 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögmenn fjögurra þingmanna Miðflokksins og Báru Halldórsdóttur tókust á um það í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag hvort leyfa ætti vitnaleiðslumál þingmannanna sem hugsað er sem undirbúningur að hugsanlegum málaferlum þeirra gegn Báru.

Vitnaleiðslumál fjögurra þingmanna Miðflokksins, þeirra Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnar Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vegna hugsanlegrar málshöfðunar gegn Báru Halldórsdóttur var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Dómari byrjaði á því að árétta afsökunarbeiðni sína til Báru fyrir að hafa rangfeðrað hana í bréfi um dómsmálið. Eftir framlagningu gagna var farið í málflutning um hvort leiða mætti vitni fram og kalla eftir gögnum.

Efast um frásögn Báru

Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna fjögurra, sagði að umbjóðendur sínir teldu freklega brotið á rétti þeirra til einkalífs með upptöku á einkasamtali þeirra á Klaustri. Þeir hefðu málshöfðun til skoðunar og að markmiðið með vitnaleiðslubeiðni væri einfalt: þeir vildu tryggja að sannað yrði hvernig brotið hefði verið gegn þeim. Mikilvægt væri að leggja fyrir dóminn myndefni af eftirlitsmyndavélum Alþingis og Klausturs sem sönnuðu hvernig brotið hefði verið gegn þingmönnunum. „Það ætti að vera hægt að sjá nákvæmlega hvernig varnaraðili framkvæmdi þetta brot,“ sagði Reimar. Það ætti að vera hægt að sjá nákvæmlega hvernig hún hefði haldið upptökunni leyndri fyrir þingmönnunum og hvort einhverjir hefðu framkvæmt brotið með henni. Reimar sagði undarlegt að varnaraðili sem hefði opinberlega sagst vera boðberi gagnsæis venti kvæði sínu í kross þegar mál beindust að henni sjálfri. „Hverju hefur varnaraðili að leyna?“ Hann sagði að þetta vekti grunsemdir skjólstæðinga sinna um að ekki væri allt eins og áður hefði verið lýst.

Lárentsínus Kristjánsson dómari sagðist hafa orðið þess vart að Bára segðist ætla að tala tæpitungulaust um aðild sína og spurði hvort það væri ekki nóg. Reimar sagði þingmennina fjóra ekki telja frásögn Báru trúverðuga og að ýmislegt í henni stæðist ekki skynsemisskoðun.

Mynd með færslu
 Mynd:

Hafi engu að leyna

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður Báru, mælti gegn kröfu þingmannanna um að kalla fyrir vitni og fá fram gögn. Auður vísaði til viðtals við Báru í Stundinni þar sem greint hefði verið ítarlega frá atvikum kvöldið sem Bára tók upp samtal þingmannanna.  Hún sagði að málshöfðunin uppfyllti ekki ákvæði laga sem vísað væri til. Auður sagði að túlka bæri lagaákvæði þröngt í máli sem þessu. Til að fara fram með þeim hætti sem þingmenn vilja þyrftu að vera mjög ríkar ástæður fyrir hendi. Nú vildu þingmennirnir kalla stjórnendur og starfsmenn Klausturs til vitnis um málið og eftir atvikum fá afrit af upptökum úr öryggismyndavélum eða upplýsingar um viðskiptavini til að leiða í ljós hver hefði tekið samtalið upp. Auður sagði að nú væri engin þörf á þessu þar sem Bára hefði gengist við upptökunni og lýst því hvernig og hvers vegna hún tók samtalið upp. Þrátt fyrir að þingmennirnir héldu málinu til streitu hefðu hvorki þeir né lögmaður þeirra sýnt fram á þörf fyrir málið. Auður sagði að Bára hefði ekkert að fela og andmælti orðum Reimars í þá veru.

Auður vísaði líka til þess að þingmennirnir hefðu leitað til Persónuverndar og kallað eftir skoðun á málinu. Hún sagði að gagnabeiðni þingmannanna ætti ekki við, frekar ætti lögregla eða Persónuvernd að taka á þessum atriðum. Nú þegar væri skoðun hafin hjá Persónuvernd. Að auki krefðust þingmennirnir þess að fá afhent gögn með miklum persónulegum upplýsingum af Klaustri bar. Hún sagði að rétt leið þingmanna og lögmanns þeirra hefði verið að hafa samband við vitni og biðja um að upptökur og gögn yrðu varðveitt. Síðan hefði átt að óska heimildar Persónuverndar um að horfa á þau gögn.

Gætu sýnt aðra í för með Báru

Reimar sagði, í andmælum, að viðtal í Stundinni hefði ekkert sönnunargildi. Það væri í grundvallaratriðum frábrugðið skýrslugjöf fyrir dómi sem um giltu ákveðnar reglur og gæfu færi á spurningum stefnenda. Hann sagði að ákvæði laga um takmarkanir fyrir vitnaleiðslumáli ættu við um ákæruvaldið. Reimar sagði að Bára hefði farið huldu höfði þegar málinu var vísað til dómstóla. Hann sagði að efnislega ætti beiðnin enn við. „Auðvitað geta í þessum götumyndavélum verið myndir sem sýna hverjir voru með varnaraðila í för,“ sagði Reimar. Hann vísaði til orða Báru um að hún væri ekki borgunarmaður fyrir bótum ef dæmdar væru og sagði ástæðu til að kanna hvort fleiri hefðu verið í för með henni þegar hleranirnar voru gerðar.

Dómarinn sagðist búast við að kynna niðurstöðu fyrir vikulok. Þegar Bára gekk út úr dómssal að þingfestingunni lokinni var henni fagnað mjög með klappi og hrópum.

Mynd með færslu
 Mynd:
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV