Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tókust á um hvort kröfur Eflingar væru hættulegar

25.01.2020 - 12:38
Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Framkvæmdastjóri Eflingar segir að Reykjavíkurborg spari sér 600-800 milljónir á ári með því að greiða ófaglærðum starfsmönnum, sem þurfa að taka á sig ábyrgð fagfólks á leikskólum og í umönnunarstörfum, ekki laun í samræmi við það. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar varar við að verði gengið að kröfum Eflingar muni aðrar stéttir einnig krefjast launahækkana.

„Samkvæmt opinberum markmiðum eiga að vera 2/3 hluti starfsfólks faglært á leikskólum. Hlutfallið í reynd er þveröfugt, 2/3 starfsfólks á leikskólum er ófaglært. Borgin hefur verið að spara sér launakostnað sem þessu nemur, að þurfa ekki að greiða jafn há laun og þyrfti að greiða leikskólakennurum,“ sagði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í Vikulokunum á Rás eitt.

Hann segir að samhliða því að ófaglært starfsfólk sé í meirihluta þá hafi það þurft að taka á sig aukna ábyrgð þar sem kröfurnar til skólastigsins verði sífellt meiri. Það gengi ekki að reka leikskólana svona til lengdar. Kjarninn í tillögum Eflingar sé ekki að Reykjavíkurborg hækki taxta umfram lífskjarasamninga, heldur sé krafist hnitmiðaðra hækkana lægstu launa.

„Aðrir munu grípa boltann og gera sömu kröfur“

Þröstur Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar, segir að hans tilfinning sé að samninganefnd Eflingar hafi verið mjög ósveigjanleg í viðræðum við Reykjavíkurborg. Efling hafi ekki reynt að gera málamiðlanir.

„Ef knúin verður í gegn mikil hækkun, umfram það sem aðrir hafa fengið, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það að aðrir munu grípa boltann strax og gera sömu kröfur fyrir sjálfa sig. Við þekkjum þetta, það er orðið margreynt hvernig þetta höfrungahlaup hefst,“ sagði Þröstur.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Þröstur Ólafsson

Þröstur sagði að enginn væri á móti því að borgar leikskólakennurum viðunandi laun, en það væri gott ef hægt væri að gera það án þess að opna leið fyrir aðra að krefjast hærri launa.

Ásta Stefánsdóttir, sveitastjóri í Bláskógabyggð, sagði að hún reikni einnig með höfrungahlaupi enda væru svo mörg dæi um það. Það sé rétt að lægstu launin í þessum störfum væru ekki há, en það þurfi að finna leið svo hækkanir til þeirra ýti ekki strax við öðrum.

Talaði um „frosnar krumlur Reykjavíkurborgar“

Viðar sagðist eiga bágt með að sjá að kröfur Eflingar bjóði upp á höfrungahlaup. Ekki væri krafist krónutöluhækkunar upp allan stigann eins og í lífskjarasamningnum, heldur væri hámarkshækkun lægstu launa 50 þúsund á samningstímanum. Þá hafi það verið samninganefnd Reykjavíkurborgar sem væri búin að vera ósveigjanleg frá upphafi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Viðar Þorsteinsson

„Við þurftum að kreista það úr frosnum krumlum þessarar samninganefndar að fá umræðu um styttingu vinnuvikunnar, þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi hampað sér linnulaust út af tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar,“ sagði Viðar Þorsteinsson.

„Ég sé ekki hvernig hægt er að gráta það að þetta fólk fái hnitmiðaða leiðréttingu á sínum kjörum,“ bætti hann við.

Segir kröfurnar stórhættulegar fyrir samfélagið

Þröstur sagði að samfélagið samþykki ekki að einhver fái miklu meira en hinn í kjaraviðræðum.

„Í öllum þjóðfélögum eru til lægstu laun. Einhverjir eru í þeim sporum, en enginn vill vera það að sjálfsögðu. Að ýta þeim upp skalann hefur reynst mjög erfitt,“ sagði Þröstur. Hann tók dæmi um það þegar háar launahækkanir náðust í gegn áður fyrr, en svo var búið að fella gengið skömmu síðar svo allt var horfið. „Svona ferðalag er stórhættulegt fyrir samfélagið.“

„Samfélagið samþykkir það ekki, að einhver fái miklu meira en hinn. Jafnvel þó sá sé með lítið. Samfélagið samþykkir litlar hækkanir, samning eftir samning. En ekki svona,“ sagði Þröstur Ólafsson.