Tóku sig af mælendaskrá vegna Miðflokksins

11.06.2019 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku sig af mælendaskrá í annarri umræðu um loftslagsmálafrumvarp umhverfisráðherra eftir að þingflokkur Miðflokksins birtist allur á mælendaskrá. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vísa báðar til þess að Miðflokkurinn sé kominn í málþóf og þær ætli ekki að taka þátt í því.

„Mér virðist auðsýnt að Miðflokkurinn er lagður af stað í málþóf númer tvö. Ég ætla bara að leyfa þeim að eiga það,“ segir Hanna Katrín um ástæður þess að hún lét taka sig af mælendaskrá. Hún vísar þar til þess að Miðflokksmenn hafa rætt þriðja orkupakkann í meira en hundrað klukkutíma. Helga Vala var á svipuðum slóðum í svari sínu. „Lífið er of gott fyrir málþóf.“

Önnur umræða um frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra um styrkingu á stjórnsýslu og umgjörð loftslagsmála hófst í dag. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, var framsögumaður fyrir áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar í málinu. Á eftir henni komu allir níu þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá og þar á eftir Helga Vala og Hanna Katrín. Þrír fyrstu ræðumenn Miðflokksins bættu sér aftur á mælendaskrá um leið og ræðum þeirra lauk. Það eru þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður, Birgir Þórarinsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Helga Vala og Hanna Katrín tóku sig hins vegar af mælendaskrá og vísuðu báðar til þess að Miðflokkurinn væri kominn í málþóf.

Formenn flokkanna á þingi hittust á fundi í dag. Honum lauk án þess að samkomulag næðist um framhald þingstarfa. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að vel hefði gengið að ná samkomulagi um ýmis mál sem ágreiningur hefur verið um. Þar á meðal er frumvarp um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Ekki náðist hins vegar samkomulag um þriðja orkupakkann. Umræða um hann er orðin sú lengsta í sögu Alþingis þar sem þingmenn Miðflokksins hafa talaði í á annað hundrað klukkutíma.

Hvorki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, né Gunnar Braga Sveinsson þingflokksformann við vinnslu fréttarinnar. Þingmenn Miðflokksins fóru í andsvör við fyrstu tveimur ræðum umræðunnar, þeirra sem Rósa Björk og Sigmundur Davíð fluttu auk þess sem Rósa Björk fór í andsvör við Sigmund Davíð. Síðan þá hafa þingmenn flutt ræður sínar en ekki farið í andsvör.

Uppfært 21:21 Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, frestaði umræðu um loftslagsmálafrumvarpið upp úr klukkan níu í kvöld. Þingfundi var haldið áfram og næsta mál tekið á dagskrá.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi