Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tóku klósettið og hreinlætið í eigin hendur

13.03.2020 - 17:46
Mynd: Þóra Valný Ingadóttir / Þóra Valný Ingadóttir
Þóra Valný Yngvadóttir lagði af stað í draumafríið ásamt unnusta sínum og vinapari í upphafi mánuðar en það varð að martröð þegar verðandi hjónakornin voru skikkuð í sóttkví í víetnömsku herfangelsi.

„Það er voða lítið sem hefur breyst, við höfum bara reynt að taka aðstæðurnar í okkar eigin hendur. Skorturinn á hreinlæti hefur hrjáð okkur mjög, til dæmis það að allir deili baðherbergi,“ segir Þóra en Síðdegisútvarpið heyrði síðast í henni á þriðjudag. Íslendingarnar hafa eins og stendur verið í fimm daga í sóttkvínni óhrjálegu. Þau láta hins vegar ekki deigan síga og hreinlega tóku klósettið í sínar hendur. „Við merktum það bara, skrifuðum utan á hurðina „Icelanders only“. Við fengum handsápu á þriðja degi en vorum búin að redda okkur aðeins fyrr. Svo tók vinkona mín sig til í kvöld og skúraði herbergið okkar með klór. Baðherbergin hafa ekki verið þrifin síðan við komum á mánudaginn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þóra Valný Ingadóttir

Um 30 manns eru í kvínni, þar um það bil tíu heimamenn og eitthvað af Englendingum. „Nú erum við farin að kynnast aðeins, heimavistarstemmningin hefur aukist undanfarna daga. Góðu fréttirnar eru þær að við fórum öll í próf í fyrradag og vorum neikvæð.“ Þau reyna að halda sig út af fyrir sig en umgangast þó Englendinga eitthvað. „Við Íslendingarnir erum mjög heppin því ræðismaðurinn sendi okkur pakka, ferðaskrifstofan líka, og svo hafði Íslendingur sem býr í Saigon samband og bauðst til að gera hvað sem er fyrir okkur. Englendingarnir eru ekki svona heppin, þau eru ekki svona „sérstök“ í sínu landi. Við fengum til dæmis ketil og kaffi frá Jökli á þriðja degi og það var rosalega hátíð, fram að því vorum við kaffilaus. Við deildum því með þeim og baráttan eykst og eykst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þóra Valný Ingadóttir
Þú búa vel að því að vera Íslendingar þegar kemur að vistum.

Á kvöldin reyna þau svo að stytta sér stundir með því að spila Uno og stunda léttar líkamsræktaræfingar. „Við reynum að gera það besta úr þessu en óskum þess auðvitað að fara heim sem allra fyrst. Við höfum ekki ennþá fengið staðfestan brottfarardag sem er mjög óþægilegt. Góðu fréttirnar eru þær að við erum neikvæð og það er forsenda þess að sleppa.“ Þóra segir að aðstæður sem þessar reyni mikið á para- og vinasambönd. „Við hefðum ekki viljað vera í sóttkví með neinum öðrum. Það hefur komið í ljós að þetta eru mjög sterk sambönd sem við höfum,“ segir Þóra að lokum, sem ætlar að giftast unnusta sínum 18. júlí.

 

davidrg's picture
Davíð Roach Gunnarsson
dagskrárgerðarmaður
andriv's picture
Andri Freyr Viðarsson