Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tók nærri 12 tíma að komast til Borgarfjarðar eystra

02.03.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Elísabet D. Sveinsdóttir - Elísebt D. Sveindóttir
Bílstjóri áætlunarbíls til Borgarfjarðar eystra var í nærri tólf klukkutíma að reyna að komast yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar á föstudaginn. Hann segist aldrei hafa upplifað annað eins veður á skarðinu.

Jakob Sigurðsson, sem keyrir með farþega og vörur milli Egilsstaða og Borgarfjarðar, lagði af stað frá Egilsstöðum rétt fyrir hádegi á föstudag á eftir bíl frá Vegagerðinni.

Hafði verið opnað um morguninn

Einn farþegi var með honum í bílnum og vörur fyrir Borgfirðinga. „Og ég fór náttúrulega uppeftir um morguninn og þá var bíllinn búinn að fara  og búið að opna,“ segir Jakob. „Svo festist hann eða tafðist niðri í Njarðvík og þá var ákveðið að senda blásara sem ég fór þá á eftir.“

Skall á vitlaust veður á Vatnsskarði

Hann segir þá hafa skollið á vitlaust veður á Vatnsskarði. Þó hafði hann ákveðið að fylgja snjóblásaranum því til stóð að bjarga snjóruðningsbílnum sem sat fastur hinum megin við skarðið. „Svo bara endaði með því að við gáfumst upp og snérum við.“

Aldrei upplifað svo vont veður á skarðinu

Þá vildi ekki betur til en svo að snjóblásarinn lent út af á leiðinni til baka og eftir að hafa reynt að brjótast lengra á áætlunarbílnum gáfust þeir upp. Þá var moksturstæki sent frá Egilsstöðum til að koma þeim niður. „Og ég var kominn inn í Egilsstaði aftur rétt fyrir miðnætti. Ég er búinn að vera í þessum ferðum síðan 1996 og bara aldrei nokkurntíma lent í þessu áður. Það munaði bara litlu að bíllinn færi á tímabili.“

Taldi samkvæmt veðurspá að hann myndi sleppa

Og Jakob segist hafa lesið það út úr veðurspánni að hann ætti að sleppa yfir áður en það færi að hvessa. „Þess vegna fór ég heldur fyrr frá Egilsstöðum heldur en áætlun segir til um. Sem dugði bara ekki til.“
„Þannig að þú hefur sennilega séð eftir því að hafa farið af stað yfir höfuð?“ 
„Já, svona eftir á að hyggja. Alltaf er maður nú vitur eftir á.“