Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tók Diamond Beach Breiðamerkursand af Google?

Mynd: rúv / rúv
Ferðamenn lofsama The Diamond beach - Demantsströnd og The Black Sand Beach - Svörtu sandfjöruna og Google er ekki í nokkrum vandræðum með að leiðbeina þeim þangað. Íslendingar ættu kannski erfiðara með það og leitarvélin stendur á gati þegar spurt er um íslensku örnefnin yfir sömu staði; Vestri-Fellsfjöru, Breiðamerkursand eða Víkurfjöru. 

Á heilsuhælinu?

Kringlugestir komu flestir af fjöllum þegar þeir voru spurðir um Demantsströnd. „Demantsströndin, ég held það sé deild á heilsuhælinu í Hveragerði, það er það eina sem mér dettur í hug,“ sagði kona sem var að snæða hádegismat á Stjörnutorgi í Kringlunni.  Ungur maður kveikti á perunni þegar enska heitið Diamond beach bar á góma. „Jú maður, það er þarna með öllum klökunum hjá Bláa lóninu, nei ég meina Jökulsárlóni.“

Í fjörunni neðan við Jökulsárlón skolar á land fallegum jökum sem ferðamenn eru margir heillaðir af, sérstaklega þeir sem hafa gaman að ljósmyndun. 

Bloggsíðum ber ekki saman um tilurð nafnsins. Á vefsíðurnni HitIceland segir að ferðamenn hafi uppgötvað fegurð strandarinnar fyrir neðan Jökulsárlón á undan Íslendingum og farið að kalla hana Diamond beach á samfélagsmiðlum. Túristar hafi sömuleiðis uppgötvað sjarmann við flugvélarflakið á Mýrdalssandi á undan Íslendingum. Eftir að pistillinn fór í loftið hafði leiðsögumaður nokkur samband við Spegilinn og sagðist hafa byrjað að nota nafnið Diamond beach fyrir um tíu árum, hann hafi því talið sig hafa fundið það upp en hugsanlega hafi fleiri fengið sömu hugmynd. 

Regína Hrönn Ragnarsdóttir, sem bloggar undir merkjum upplýsingaveitunnar og markaðstorgsins Guide to Iceland, segir á Facebook að starfsmaður fyrirtækisins hafi fengið hugmyndina fyrir nokkrum árum og hún svo vísað til þessa nýja örnefnis í fyrsta sinn í ferðabloggi. 

„Fáir heimsóttu ströndina fyrir neðan Jökulsárlón fyrr en við fórum að kalla hana The Diamond beach. Ég hafði oft skroppið þangað og tekið myndir áður er en ég skrifaði þessa grein og nafnið trekkti að túrista.“ 

Skrifar Regína. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Magnús Björn Ólafsson er ritstjóri Guide to Iceland.

„Ég byrjaði að vinna hjá Guide to Iceland fyrir tveimur árum síðan og tók strax eftir þessu nafni því ég hafði ekki heyrt það áður. Ég fór að skoða greinar sem voru til eftir okkar og spyrjast fyrir. Þá kom í ljós að þetta var ákvörðun sem hafði verið tekin innan húss, fyrir fjórum fimm árum, að í raun vísaði Breiðamerkursandur til of víðfeðms landsvæðis til að það væri lýsandi fyrir þetta náttúrufyrirbæri sem Demantsströndin er, þessar tvær litlu sandspildur sem eru fyrir austan og vestan ós árinnar sem rennur úr Jökulsárlóni út í sjó. Þetta var í raun gert til að auðkenna staðinn betur, hjálpa ferðamönnum að rata þangað og skapa mynd af staðnum í huga þeirra,“ útskýrir Magnús.

Íslendingar gleymt göldrunum

Hann segir skoplegt að Íslendingum hafi yfirsést fegurð Demantsstrandarinnar. „Það er það sem er svo jákvætt við þennan straum af ferðamönnum sem er að koma hingað. Þeir eru að hjálpa okkur að sjá hvað landið okkar er magnað, við tökum ekki lengur landinu sem sjálfsögðum hlut því þessir gestir hafa kennt okkur að landið okkar er einstakt og göldrótt, eitthvað sem við höfum kannski gleymt.“ 

Engin tengsl við íslenska nafnið

Það sem er sérstakt við nafngiftina Diamond beach er að hún hefur enga skírskotun til íslenska staðarheitisins. Formlega er ekki til nein Demantsströnd bara Breiðamerkursandur eða Vestri-Fellsfjara. 

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi
Reynisfjara

Annað dæmi um enskt heiti sem samsvarar ekki því íslenska er Black sand beach sem hefur fest sig í sessi að því er virðist ýmist í stað Reynisfjöru eða Víkurfjöru. En hvað finnst Magnúsi um þessa þróun? „Mér finnst þetta bara allt í lagi, ég sé allavega ekki hvað er neikvætt við það. Það er ekki verið að endurskíra Breiðamerkursand heldur útskýra upp á nýtt lítinn hluta af þessu landflæmi. Ég held að Black sand beach sé heldur aldrei að fara að yfirtaka orðið Reynisfjara en það er erfitt fyrir útlendinga að bera nafnið Reynisfjara fram.“ 

Þriðji áhugaverðasti staðurinn á Suðurlandi

Ferðaþjónustufyrirtæki hafa tekið nafninu Diamond Beach opnum örmum og notað það við markaðssetningu ferða. Á bókunarsíðunni Tripadvisor er Demantsströndin sagður sá þriðji áhugaverðasti af 175 stöðum á Suðurlandi. Hann fær fimm stjörnur af fimm mögulegum og ferðamenn keppast við að lofsama hann í athugasemdum. Á samfélagsmiðlinum Instagram getur fólk valið að gefa upp staðsetninguna Diamond beach þegar það setur inn myndir. 

Ætlar að koma Breiðamerkursandi á kortið

Kortavefur Google, Google maps, kannast  vel við Demantsströnd og getur leiðbeint fólki þangað en Google stendur á gati þegar það er beðið að vísa veginn á Breiðamerkursand eða Vestri-Fellsfjöru, kannast ekki einu sinni við Víkurfjöru, veit þó af tilvist Víkur og Breiðamerkurjökuls. Hvað finnst Magnúsi um þetta? „Það væri skemmtilegast ef bæði erlendu og íslensku heitin myndu lifa á Google maps. Eftir því sem ég best veit er ekkert mál að bæta við staðsetningu á kortið. Það er þá líklega svipað ferli og þegar þú ert að uppfæra grein á Wikipediu, einhver rýni sem fer í gang. Hvort Google er að láta vinsælla leitarorðið yfirtaka óvinsælla leitarorðið veit ég ekki en alveg eins og þú getur bætt hvaða fyrirtæki við á Google maps getur þú bætt þangað örnefnum. Ég ætla bara að gera það á eftir, fara bara upp á skrifstofu og setja inn Breiðamerkursand á Google maps, athuga hvort Google viðurkenni það ekki sem gott og gilt. Þetta er kannski eitthvert verkefni sem opinberir aðilar þyrftu að fylgjast með, sérstaklega þegar við erum að tala um að íslenskan sé á undanhaldi, bæði í viðskiptaumhverfinu og þessu nýja tækniumhverfi þar sem tjáskipti fara að miklu leyti fram í gegnum samskiptaforrit og snjallsíma.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Google kannast vel við Diamond beach en ratar ekki á Breiðamerkursand.

Google býður fólki að bæta staðarnöfnum á kortið. Ef það er rétt að það staðarheiti sem meira er leitað að birtist á kortinu en önnur heiti yfir sama stað, sem minna er leitað að, birtist ekki,  gætu formleg örnefni vikið fyrir óformlegum þegar fram líða stundir. 

Whispering cliffs eða Echo rocks?

Margir íslenskir staðir hafa fengið erlend heiti en flest eiga þau það líklega sameiginlegt að vera beinþýðingar á þeim íslensku. Bláa lónið varð The Blue lagoon. Gullfoss varð The Golden waterfall. Fjölmargir ferðamenn berja hann augum þegar þeir fara Gullna hringinn, The Golden circle. Nafn Geysis, annars áfangastaðar við hinn Gullna hring, er sérstakt að því leyti að það hefur náð alþjóðlegri fótfestu og eru sambærilegir hverir kallaðir Geyser upp á ensku. Í Bandaríkjunum má  því til dæmis finna The Great Fountain Geyser og Daisy Geyser og á Nýja-Sjálandi er Lady Knox Geyser að finna.  

Fásóttari staðir, fjarri suðvesturhorninu, hafa líka fengið erlend nöfn. Ferða- og kynningarskrifstofur kalla Stórurð The Giant Boulders en ber ekki saman um hvort skuli kalla Hljóðakletta Echo rocks eða The whispering cliffs upp á ensku. Dimmuborgir eru kallaðar Dark Castles. 

En er það ekki til vandræða þegar ferðaskrifstofum ber ekki saman um hvert erlenda heitið skuli vera. Nei, segir Magnús. Google leitarvélin komi í veg fyrir allan rugling. 

„Ef þú vilt ná til ferðamanna og vilt skoða hvert þá langar að fara athugarðu bara hvaða leitarniðurstöður eru vinsælastar og ef Echo rocks er vinsælla en Whispering cliffs skrifarðu texta þar sem Echo Rocks er aðalleitarorðið og Whispering cliffs í aukaflokki.“

Ekkert verklag við þýðingu örnefna

Viðmælendum Spegilsins er ekki kunnugt um að það séu reglur til um verklag við þýðingu íslenskra örnefna yfir á önnur tungumál. Að það þurfi að vera eitthvert samræmi. Gunnar H. Kristinsson, forstöðumaður sviðs mælinga og landupplýsinga hjá Landmælingum Íslands og fulltrúi umhverfisráðuneytis í örnefnanefnd, segir erlend örnefni yfir íslenska staði, ýmist beinþýdd eða frumsamin, ekki hafa komið inn á borð nefndarinnar. 

Það er ekkert sem bannar fólki að kalla Esju Heklu

Örnefni er skilgreint sem nafn á landfræðilegum punkti eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til ákveðins staðar. Lög um örnefni eru að sögn Gunnars íhaldssöm í grunninn, þau hafa það að markmiði að vernda örnefni og nafngiftahefðina í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi. Gunnar segir þó ekkert í lögunum koma í veg fyrir að fólk gefi út kort eða bækur með frumsömdum örnefnum íslenskum eða enskum, engin viðurlög við því að kalla Esjuna Heklu. Fólk hafi frelsi til þess og engin kvöð um að það geti íslensku örnefnanna í verkum sínum.

Vill Google nota grunn Landmælinga? 

Hann segir að hugsanlega gæti menntamálaráðuneytið, sem örnefnamál heyra undir, boðið Google og öðrum alþjóðlegum fyrirtækjum upp á að nota örnefnagrunn sem Landmælingar hafa unnið. Hvort Google, fyrrtæki með staðfestu vestanhafs, tæki vel í slíkt boð er óljóst.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV