Á heilsuhælinu?
Kringlugestir komu flestir af fjöllum þegar þeir voru spurðir um Demantsströnd. „Demantsströndin, ég held það sé deild á heilsuhælinu í Hveragerði, það er það eina sem mér dettur í hug,“ sagði kona sem var að snæða hádegismat á Stjörnutorgi í Kringlunni. Ungur maður kveikti á perunni þegar enska heitið Diamond beach bar á góma. „Jú maður, það er þarna með öllum klökunum hjá Bláa lóninu, nei ég meina Jökulsárlóni.“
Í fjörunni neðan við Jökulsárlón skolar á land fallegum jökum sem ferðamenn eru margir heillaðir af, sérstaklega þeir sem hafa gaman að ljósmyndun.
Bloggsíðum ber ekki saman um tilurð nafnsins. Á vefsíðurnni HitIceland segir að ferðamenn hafi uppgötvað fegurð strandarinnar fyrir neðan Jökulsárlón á undan Íslendingum og farið að kalla hana Diamond beach á samfélagsmiðlum. Túristar hafi sömuleiðis uppgötvað sjarmann við flugvélarflakið á Mýrdalssandi á undan Íslendingum. Eftir að pistillinn fór í loftið hafði leiðsögumaður nokkur samband við Spegilinn og sagðist hafa byrjað að nota nafnið Diamond beach fyrir um tíu árum, hann hafi því talið sig hafa fundið það upp en hugsanlega hafi fleiri fengið sömu hugmynd.
Regína Hrönn Ragnarsdóttir, sem bloggar undir merkjum upplýsingaveitunnar og markaðstorgsins Guide to Iceland, segir á Facebook að starfsmaður fyrirtækisins hafi fengið hugmyndina fyrir nokkrum árum og hún svo vísað til þessa nýja örnefnis í fyrsta sinn í ferðabloggi.
„Fáir heimsóttu ströndina fyrir neðan Jökulsárlón fyrr en við fórum að kalla hana The Diamond beach. Ég hafði oft skroppið þangað og tekið myndir áður er en ég skrifaði þessa grein og nafnið trekkti að túrista.“
Skrifar Regína.