Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Togstreita og óeining um valdmörk ríkislögreglustjóra

09.03.2020 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ríkisendurskoðun hvetur til þess að lögregluembættin verði sameinuð; ein lögregla sem myndi eitt lið undir sameiginlegri stjórn óháð fjölda umdæma eða einstökum verkefnum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt embættisins á ríkislögreglustjóra. Fyrrverandi ríkislögreglustjóri segir að kvartanir og kröfur lögreglustjóra á hendur embættinu hafi farið vaxandi eftir aðskilnað sýslumanns- og lögregluembætta árið 2015.

Skortur á samstarfi, samráði og upplýsingaflæði veldur ósætti, að mati ríkisendurskoðanda. Óeining um valdmörk og yfirstjórnunarhlutverk ríkislögreglustjóra hafi á síðustu árum leitt til þess að lögreglustjórar hafi leitað beint til dómsmálaráðuneytisins í auknum mæli í stað ríkislögreglustjóra. Þrátt fyrir þessa togstreitu um yfirstjórn lögreglu sé lögreglustarf faglegt.

Kröfur og óþreyja lögreglumanna farið vaxandi frá 2015

Í skýrslunni er haft er eftir fyrrverandi ríkislögreglustjóra, Haraldi Johannessen að frá því að skil urðu milli sýslumanns- og lögregluembætta árið 2015 hafi kröfur og umkvartanir lögreglustjóra á hendur embættinu farið stigvaxandi og óþreyja í garð yfirmanna þess. Þá hafi lögreglustjórar leitað til ráðuneytisins ef sjónarmið þeirra fengu ekki hljómgrunn. Starfsfólk dómsmálaráðuneytisins taldi að reglulegir samráðsfundir innan embættisins með lögreglustjórum hefðu verið of einhliða af hálfu ríkislögreglustjóra.

Fjögur ár að koma fatamálum lögreglu í viðunandi horf

Embætti ríkislögreglustjóra óskaði eftir athugun Ríkisendurskoðunar á rekstri bílamiðstöðvarinnar. Auk rekstur bílamiðstöðvarinnar hafa lögreglustjórar og Landssamband lögreglumanna gagnrýnt kaup á búnaði og fatnaði. Það tók um fjögur ár að koma útboðsmálum á fatnaði lögreglu í viðunandi horf. Ríkisendurskoðandi telur að það þurfi að koma upp kerfi í tengslum við ökutæki lögreglu með raunhæfum áætlunum og bílaflotinn sé endurnýjaður með reglulegum hætti. 

Eitt sameinað lögregluembætti bæti fjármálin

Niðurstaða ríkisendurskoðanda er sú að hægt sé að stórbæta nýtingu fjármuna lögreglunnar með því að sameina lögregluembættin í eitt. Töluverður halli var á rekstri ríkislögreglustjóra á árunum 2017-2018 sem má rekja til reksturs bílamiðstöðvarinnar. Annar rekstur ríkislögreglustjóra var þó neikvæður á sama tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð.