Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tjörneshreppur segir sig úr SÍS og Eyþingi

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni - RÚV
Tjörneshreppur hefur sagt sig úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eyþingi. Hreppurinn er þar með eina sveitarfélag landsins sem stendur utan Sambands sveitarfélaga. Varaoddviti Tjörneshrepps segir úrsögnina mótmæli við þingsályktun um þúsund manna lágmark í hverju sveitarfélagi.

Um áramótin bjuggu í Tjörneshreppi 55 manns. Hreppsnefnd ákvað á fundi sínum í gær að segja sig úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

Það kemur til vegna þingsályktunartillögu sem samþykkt var á aukalandsþingi í síðustu viku þar sem kveðið er á um að íbúar í hverju sveitarfélagi verði ekki færri en þúsund.
Katý Bjarnadóttir er varaoddviti Tjörneshrepps.

„Við næstu kosningar þá verður þetta sveitarfélag ekki til lengur. Það er verið að skylda okkur til að sameinast til að ná þessum þúsund mannaíbúafjölda.“ 

Og hugnast það ykkur ekki að sameinast öðrum sveitarfélögum?

„Það hefur ekki gert það hingað til og ég held að það sé ekkert endilega það sem við óskum eftir. Við höfum haft gott samstarf við Norðurþing,“ segir Katý.

Aðalsteinn Jóhann Halldórsson oddviti sagði í samtali við fréttastofu að það væri umhugsunarefni hvort maður vilji vera í samtökum sem vilja ekki að maður sé til. Þá segir hann að sveitarfélagið hafi lagt talsverða fjármuni til Eyþings, en hann telji betra fyrir sveitarfélagið að standa utan þess. Katý segir að úrsögnin komi ekki í veg fyrir sameiningu.

„Nei. Við höfum ekkert val. Eins og staðan er í dag þá verðum við að sameinast, hvort sem við erum innan Sambands íslenskra sveitarfélaga eða ekki. Og við sjáum þess vegna ekki ástæðu til að vera þar meðan þau vilja ekki að við séum til,“ segir Katý.