Tjarnarslagur í Gettu betur

Tjarnarslagur í Gettu betur

14.02.2020 - 19:40
Þriðja viðureign 8-liða úrslita Gettu betur fer fram í kvöld og hefst klukkan 20:10. Um er að ræða sannkallaðan Tjarnarslag en það eru miðbæjarskólarnir tveir, Menntaskólinn í Reykjavík og Kvennaskólinn í Reykjavík sem mætast.

Kvennaskólinn er núverandi handhafi hljóðnemans en skólinn vann einmitt Menntaskólann í Reykjavík í úrslitum keppninnar í fyrra. Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá er MR sigursælasti skóli keppninnar og því ljóst að viðureignin verður spennandi. 

Lið Kvennaskólans skipa þau Ari Borg Helgason, Berglind Bjarnadóttir og Áróra Friðriksdóttir og í liði MR sitja Ármann Leifsson, Birta Líf Breiðfjörð Jónasdóttir og Víkingur Hjörleifsson. Spurningahöfundar og dómarar eru Ingileif Friðriksdóttir, Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason og spyrill er Kristjana Arnarsdóttir. 

Bein útsending hefst eins og áður sagði á RÚV klukkan 20:10 og hægt er að horfa á hana í spilaranum hér fyrir ofan.