Tjaldur að hverfa

25.01.2013 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Mávum virðist vera að fjölga, sérstaklega í Breiðafirði, samkvæmt vetrartalningu Náttúrfræðistofnunar. Vaðfuglum sem hafa vetursetu á suðvesturhorninu hefur hins vegar fækkað.

Hvellt píp tjaldsins þekkja flestir. Það kann þó að verða sjaldgæfara og sjaldgæfara, ef marka má fyrstu niðurstöður vetrartalningar á fuglum, segir Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. „Það er svona framhald af því sem við höfum séð undanfarin ár að vaðfuglum virðist vera að stórfækka, þeim sem hafa vetursetu hér á suðvesturhorninu,“ segir hann.  

„Við kunnum enga skýringu á því en það er einstaklega slæmt núna í ár og fáir fuglar sem við höfum séð. Þetta eru tjaldar og stelkar og sendlingar. Það er svona áberandi fækkun þar. En svo er veruleg fjölgun í fuglum eins og mávum og stafar það mest af fuglum sem eru að leita inn á Snæfellsnes núna út af síldinni. Það eru gífurlega háar tölur þar, miklu hærri en nokkurn tíma áður.“ Mikil fjölgun virðist vera á svartbaki og hvítmávi, en þetta séu fyrst og fremst tilfærslur. 

Endanlegar niðurstöður fuglatalningar vetrarins ættu að liggja fyrir á næstu dögum. En allt bendir til þess að grunntónninn í sinfóníu fjörunnar í nánustu framtíð verði gargið í veiðibjöllunni. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi