Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tjáir sig ekki um moskumálið strax

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, vill ekki tjá sig að svo stöddu um ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita flokksins og flugvallarvina í Reykjavík, um moskubyggingu.

Sigmundur sagði í stuttu samtali við fréttastofu í morgun að hann hefði ekki sett sig inn í málið vegna undirbúnings á leiðtogafundi norrænu ríkjanna og allar yfirlýsingar um það yrðu að bíða uns honum væri lokið.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er eini ráðherra framsóknarflokksins sem hefur tjáð sig um ummæli Sveinbjargar. Það gerði hann á Facebook í gær þegar hann tók undir orð Sigrúnar Magnúsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, um að skoðanir oddvita flokksins og flugvallarvina í Reykjavík um moskubyggingu endurspegli ekki afstöðu flokksins - þær gangi reyndar þvert á stefnu hans.