Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tíu til tólf mánuðir er langur tími fyrir börn

05.07.2019 - 19:41
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Dómsmálaráðherra gaf í dag Útlendingastofnun heimild til að stytta málsmeðferðartíma flóttafólks með því að auka fé til málaflokksins. Börn eigi að vera í forgangi. „Vegna þess að tíu til tólf mánuðir er langur tími. Það er lengri tími í raun fyrir börn en fullorðna, þau eru fljótari að skjóta rótum,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, dómsmálaráðherra.

Þórdís Kolbrún segir að hún geti ekki svarað því hvort þetta hafi áhrif á málalyktir afgönsku fjölskyldnanna.  „Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvernig niðurstaðan verður enda er sú ákvörðun ekki mín. Við erum að taka kerfið aðeins til endurskoðunar og koma fram með ákveðnar tillögur sem verða að fá að fara sína leið,“ segir Þórdís jafnframt. Reglugerðinni var breytt í dag. Þá á að fá einhvern utan þings til að stýra sérstakri þingmannanefnd um útlendingamál. 

Deilt um aðbúnað flóttafólks í Grikklandi

Flóttafólk hefur ekki verið sent héðan til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í nærri áratug. Annað gildir um fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi - það fer ekki í gegnum hælisleitendakerfið þar, sem er talið óviðunandi. 

Nú ert þú í forystu vinstri grænna sem er með mjög skýra stefnu í þessum málaflokki, er verið að framfylgja henni? „Stefna okkar byggist á því að við eigum að hafa mannúð að leiðarljósi í móttöku innflytjenda og flóttafólks. það er það sama og er leiðarljós innflytjendalaganna ef við teljum að það sé ekki að ganga sem skyldi þá er mikilvægt að taka það til skoðunar og það er það sem við erum að gera,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Eiga fund með Rauða krossinum

Forsætisráðherra segir að alþjóðastofnunum beri ekki saman um aðbúnað þeirra sem eru með alþjóðlega vernd í Grikklandi. „Nú hefur Rauði krossinn lagt fram sínar áhyggjur af því hvernig staðan er í Grikklandi. Ástæða þess að það hefur verið sent til Grikklands er að við erum aðilar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Við fylgjum þeirra leiðbeiningum,“ segir Katrín jafnframt. 

Þórdís Kolbrún hefur óskað eftir fundi með Rauða krossinum vegna þessa. „En það er þannig að einstaklingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd og eru í Grikklandi eru í raun í sömu stöðu og grískir ríkisborgarar sem þurfa félagsaðstoð að halda. Það þarf að horfa á það frá því samhengi líka,“ segir Þórdís Kolbrún.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV