Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu taumlausar útihátíðir um versló

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Thorlacius - RÚV

Tíu taumlausar útihátíðir um versló

01.08.2019 - 13:15

Höfundar

Mesta ferðahelgi ársins er í uppsiglingu og margir hyggjast fara í sumarbústað eða hafa það rólegt með vinum. En fyrir þá sem sækja í margmenni, læti og stemningu er hérna yfirlit yfir helstu útihátíðir vítt og breytt um landið.

Innipúkinn

Þeir sem vilja halda sig innan borgarmarkanna geta kíkt á Innipúkann sem verður að þessu sinni á Grandanum. Þá verður Útipúkinn haldinn í fyrsta sinn og er það sá hluti hátíðarinnar sem fram fer utandyra. Fram koma listamenn eins og Aron Can, Prins Póló, GDRN, Auður, Hatari og Sykur.  

Sæludagar

Í Vatnaskógi standa KFUM og KFUK fyrir fjölskylduhátíðinni Sæludögum. Páll Óskar slær upp balli og Lárus töframaður galdrar stemningu upp úr hatti sínum. Hverju kvöldi lýkur á bænastund eða lofgjörð.

Mýrarboltinn

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta er haldið í Bolungarvík. Í mýrarleðjunni þar verður drullumallað á daginn og dansað á kvöldin en söngvarinn Flóni kemur fram á lokahófinu á laugardag. 

Norðanpaunk

Pönkarar landsins koma saman á Laugarbakka í Húnaþingi vestra á tónlistarhátíðinni Norðanpaunk. Fram koma listamenn eins og Johnny Blaze & Hakki Brakes, Korter í flog, BSÍ, Kælan mikla, Bagdad Brothers, Dauðyflin, Hórmónar og Pink Street Boys.

Síldarævintýrið á Siglufirði

Í ár verður boðið upp á fleiri en fimmtíu viðburði, listasýningar, tónleika og margt fleira.

Flúðir um versló

Fjölskylduhátíð með furðubátakeppni, markaði, leiktækjum og tónlistardagskrá á kvöldin. Fram koma meðal annars Pálmi Gunnars, Eyþór Ingi og Made in sveitin.

Ein með öllu

Á Akureyri verða jaðaríþróttir, þrekraunir, útivist og leikir í brennidepli á Íslensku sumarleikunum. Auk þess verður skemmtidagskrá með tónleikum og dansiböllum á kvöldin 

Neistaflug í Neskaupstað

Tjaldmarkaður, skrúðganga, strandblaksmót, flugeldasýning og brunaslöngubolti á milli hverfa verður meðal annars á döfinni þá fjóra daga sem hátíðin stendur yfir.

Unglingalandsmót UMFÍ

Landsmótið verður haldið á Höfn í Hornafirði í þetta skiptið en það hefur fest sig í sessi sem vímuefnalaus valkostur þar sem ungt fólk keppir í hinum ýmsu íþróttagreinum.

Þjóðhátíð

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefur löngum verið stærsta og vinsælasta útihátíðin. Þar verða tónleikarnir, flugeldarnir og brekkusöngurinn á sínum stað en fram koma listamenn eins og Páll Óskar, Svala Björgvins, ClubDub, GDRN og Friðrik Dór.


Búist er við mikilli umferð um allt land og verður lögregla víða með aukinn viðbúnað og umferðareftirlit. Vegfarendur eru hvattir til að fara varlega. Embætti ríkislögreglustjóra sendir auk þess sérsveitarmenn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum til aðstoðar við löggæslu, líkt og gert hefur verið undanfarin ár.

Blóðbankinn hefur biðlað til fólks að gefa blóð en birgðir bankans eru minni en æskilegt er fyrir langa og mikla ferðahelgi en illa hefur gengið að ná í blóðgjafa undanfarið því margir eru á faraldsfæti. Alla blóðflokka vantar, en sérstaklega er óskað eftir gjöfum í blóðflokki O mínus.

Þá er vert að minna á að neyðarmóttaka Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis er opin allan sólarhringinn. Auk bráðadeildar í Reykjavík er neyðarmóttaka á Akureyri og í Vestmannaeyjum þar sem ljósmóðir og læknir verða á vakt allan sólarhringinn.