Tíu mest spiluðu lög Rásar 2 árið 2019

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett

Tíu mest spiluðu lög Rásar 2 árið 2019

02.01.2020 - 10:48

Höfundar

Tregafullt kántrí, kammerpopp, Eurovisionhatur og sumarslagari umdeilds poppara raða sér í tíu efstu sætin yfir mest spiluðu lög Rásar 2 árið 2019.

Farið var yfir 50 mest spiluðu lög Rásar 2 á nýársdag. Hægt er að hlusta á þáttinn í útvarpsspilara RÚV en hér eru þau tíu mest spiluðu.

10)


9)

Breski ofurupptökustjórinn og lagahöfundurinn Mark Ronson hefur samið lög fyrir ótal poppstjörnur og ömmur þeirra, til að mynda Amy Winehouse, Adele, Bruno Mars, Lady Gaga og Lilly Allen. Hann fór mikinn á árinu og gaf út breiðskífuna Late Nigh Feelings í sumar en tvö lög af henni raða sér í níunda og tíunda sætið yfir mest spiluðu lög ársins á Rás 2. Lögin eru feikilega fagmannlegt kraftpopp þar sem Ronson nýtir raddbönd dívanna Miley Cyrus og Lykke Li til hins ítrasta.


8)

Hjartaknúsarinn John Mayer nær allt að því Ed Sheeranískum hæðum í angurværu ballöðunni I Guess I Just Feel Like sem skilar honum áttunda sætinu á listanum.


7)

Fyrrum harðkjarnarokkarinn lítur vestur um haf á sinni fyrstu sólóskífu og klæðir sig í tregafullan kántríbúning af gamla skólanum sem fer honum gríðarlega vel.


6)

Kammerpoppsveitin Hjaltalín sneri aftur eftir margra ára hlé með þessu þokkafulla lagi og glæsilegum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu.


5) 

Kántrígyðjan á tvo fulltrúa á topp tíu listanum að þessu sinni því hin frábæra söngkona Kacey Musgraves rígheldur í fimmta sætið með harmþrungna óðnum til geimkúrekans.


4)

Órofin sigurganga Of Monsters and Men hélt áfram á árinu með þriðju breiðskífu sveitarinnar og Villtu rósirnar unnu hug og hjörtu hlustenda Rásar 2 og gjörvallrar heimsbyggðarinnar.


3)

Væntingarnar fyrir næstu breiðskífu frá Hjaltalín eru orðnar Hallgrímskirkjuháar en bæði lögin sem þau sendu frá sér á árinu enda á topp tíu listanum yfir vinsælustu lög Rásar 2 á árinu.


2)

Hatrið sigraði í Söngvakeppninni í vor og kom Íslendingum loksins upp úr undanriðli í Eurovision. Það gerði svo góða hluti í áhorfendakosningunni víða um álfuna þótt íhaldssamar dómnefndir hafi verið eitthvað tregari til. Hatrið mun sigra ómaði ótt og títt á öldum ljósvakans, dansgólfum skemmtistaða og í hljóðkerfum barnaafmæla en þegar árið er gert upp er það í öðru sæti yfir mest spiluðu lög ársins á Rás 2.


1)

Þegar öll vötn hafa runnið til sjávar, hver einasta útvarpsmínúta gufað upp í eilífðina og árið hefur safnast til systra sinna er aðeins eitt lag eftir og ólíkt því sem áður var. Auður var líklega vinsælasti en jafnframt umdeildasti tónlistarmaður þjóðarinnar og vakti athygli fyrir bersögla texta um eitraðar ástir, fíkniefnaneyslu og geðræna kvilla sem hittu þúsaldarkynslóðina í hjartastað en vöktu hneykslan hjá sumum af eldri kynslóðinni. En það er bjarta yfir í sumarslagaranum Enginn eins og þú sem er þegar upp er staðið mest spilaða lag Rásar 2 á því herrans ári 2019.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hann þarf ekkert að taka þetta persónulega“

Tónlist

„Þetta eru þrír hljómar og sannleikurinn“

Popptónlist

Óvæntur sigurvegari á Grammy-hátíðinni

Erlent

Kosmískur samruni