
Tíu kærðir fyrir akstur undir áhrifum
Stærstu ferðahelgi ársins lauk í gær og flykkjast nú landsmenn til síns heima. Búist er við því að umferðin verði hvað þyngst nú í kringum hádegið á Suðurlandi og Vesturlandi. Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður með aukið eftirlit á Suður- og Vesturlandsvegi og hvetur lögregla ökumenn til þess að flýta sér hægt.
Hermundur Guðsteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að síðasti sólarhringur hafi verið furðurólegur þrátt fyrir hraðakstur. Tuttugu og einn ökumaður hefur verið kærður fyrir hraðakstur á Suðurlandi frá því í gærmorgun.
„Við munum setja upp umferðarpósta, svona víðs vegar. Það eru ekki fyrir fram ákveðnir staðir. Fer eftir umferðinni. Allir ökumenn úr Landeyjahöfn verða stöðvaðir og kannað með ástand þeirra.“
Þótt lögregla bjóði ökumönnum að blása í áfengimæla hafa tíu ökumenn verið kærðir, frá því klukkan þrjú í nótt, fyrir akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Ökumennirnir voru allir á leið úr Landeyjahöfn, en Herjólfur hefur siglt frá Vestmannaeyjahöfn frá því klukkan tvö í nótt.
Hermundur hvetur ökumenn til að fara ekki af stað nema þeir séu allsgáðir. „Já, þeir verða stöðvaðir engu að síður einhvers staðar á leiðinni. Það er nokkuð ljóst. Þannig að það er um að gera að nýta sér það að blása niðri í Landeyjahöfn. Það á ekki að þurfa að lenda í því að vera tekinn fyrir ölvunarakstur síðar á leiðinni.“
Þá voru þrjú minni háttar umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunar á Suðurlandi. Þriggja bifreiða árekstur varð á Suðurlandsvegi við Olís á Selfossi. Engin meiðsli urðu fólki í þeim.
Einar Magnús Magnússon hjá Samgöngustofu segist búast við því að umferðin verði þung í dag. Það sem skipti meginmáli fyrir ökumenn sé að stunda ekki framúrakstur við erfiðar aðstæður, og að ökumenn séu vel úthvíldir áður en lagt er af stað. Svefnleysi geti haft sömu afleiðingar og vímuefni við akstur.