Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins

Mynd með færslu
 Mynd: Birkir Ásgeirsson - RÚV

Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins

23.12.2019 - 07:00
Samtök íþróttafréttamanna birtu í dag listann yfir þá tíu íþróttamenn sem flest atkvæði fengu í kjörinu á íþróttamanni ársins 2019. Þrír sem þegar hafa hlotið nafnbótina eru meðal tíu efstu í kjörinu í ár. Úrslitin úr kjörinu verða kynnt laugardagskvöldið 28. desember í beinni útsendingu RÚV. Útsendingin hefst klukkan 19:40.

Samtök íþróttafréttamanna hafa kjörið íþróttamann ársins frá árinu 1956. Fyrstur til að hljóta nafnbótina var Vilhjálmur Einarsson þrístökkvari. Vilhjálmur hefur jafnframt oftast hlotið titilinn eða fimm sinnum. Næst oftast hefur Ólafur Stefánsson handboltamaður hlotið heiðurinn, eða fjórum sinnum. Einar Vilhjálmsson spjótkastari varð svo íþróttamaður ársins þrisvar, sem og Strandamaðurinn sterki, Hreinn Halldórsson kúluvarpari og Örn Arnarson sundmaður.

Það íþróttafólk sem fékk flest atkvæði í kjörinu þetta árið og er í efstu tíu sætunum er í stafrófsröð:

Anton Sveinn McKee

epa08047283 Anton Sveinn McKee of Iceland competes in the Men's 200m Breaststroke Final at the LEN European Short Course Swimming Championships 2019 in Glasgow, Scotland, Britain, 5th December 2019.  EPA-EFE/ROBERT PERRY
 Mynd: EPA

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton Sveinn varð á árinu fyrsti Íslendingurinn, og hingað til sá eini, til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári. Það gerði hann með því að komast í undanúrslit í 200 metra bringusundi á HM í Suður-Kóreu í sumar. Anton Sveinn átti einnig gott mót á EM í 25 metra laug í Glasgow í Skotlandi fyrr í þessum mánuði. Hann var aðeins sjö hundraðshlutum úr sekúndu frá því að komast á verðlaunapall í 200 metra bringusundi þar sem niðurstaðan varð 4. sæti. Þá margbætti Anton Sveinn Íslands- og norðurlandamet á mótinu í Glasgow. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Anton Sveinn McKee er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Arnar Davíð Jónsson

Mynd með færslu
 Mynd: Keilusamband Íslands

Arnar Davíð Jónsson, keilari úr Keilufélagi Reykjavíkur. Arnar Davíð braut blaði í íslenskri keilusögu í nóvember þegar hann lék, fyrstur Íslendinga, til úrslita á móti í bandarísku keilumótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi. Arnar hreppti silfur og endurtók leikinn daginn eftir í úrslitum í lokamóti heimsmótaraðarinnar. Arnar Davíð sigraði svo á Evrópumótaröðinni, fyrstur Íslendinga, þegar hann vann lokamót mótaraðarinnar í Danmörku.

Þetta er í fyrsta sinn sem Arnar Davíð Jónsson er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins. Hann er jafnframt fyrsti keilarinn sem kemst á topp 10 listann.

Aron Pálmarsson

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni. Aron varð Spánarmeistari með Barcelona í vor en liðið vann spænsku deildina með miklum yfirburðum. Aron komst jafnframt í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu með Barcelona í vor. Á yfirstandandi leiktíð hefur Aron farið mikinn með Barcelona sem situr í toppsætinu í sínum riðli í Meistaradeildinni. Aron lék vel þegar Ísland komst í milliriðla á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar og þá skoraði hann 33 mörk í sex leikjum í undankeppni EM á árinu þar sem Ísland tryggði sér þátttökurétt í lokakeppninni í janúar.

Þetta er í sjöunda sinn sem Aron Pálmarsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Aron hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins árið 2012. Aron var í fyrsta sinn meðal tíu efstu árið 2010, en síðast árið 2016.

Glódís Perla Viggósdóttir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Rosengård í Svíþjóð. Glódís Perla varð í haust sænskur meistari með Rosengård. Hún var eini leikmaður liðsins sem lék hverja einustu mínútu í öllum tuttugu og tveimur deildarleikjum tímabilsins. Auk þess að leika frábærlega í vörninni skoraði Glódís þrjú mörk á leiktíðinni. Þá var Glódís í lykilhlutverki í hjarta varnarinnar hjá íslenska landsliðinu sem vann alla þrjá leiki sína á árinu í undankeppni Evrópumótsins. Íslenska liðið fékk aðeins eitt mark á sig í leikjunum þremur.

Þetta er í fyrsta sinn sem Glódís Perla Viggósdóttir er meðal tíu efstu í kjörinu.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir

Mynd með færslu
 Mynd: FRÍ

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttakona úr ÍR. Guðbjörg Jóna var í miklum metaham á árinu en hún bætti Íslandsmet kvenna í bæði 100- og 200 metra spretthlaupi. Þá jafnaði hún Íslandsmet Tíönu Óskar Withworth í 60 metra hlaupi innanhúss. Guðbjörg Jóna var jafnframt hluti af boðhlaupssveit sem jafnaði Íslandsmetið í fjórum sinnum 200 metra spretthlaupi á Reykjavíkurleikunum. Guðbjörg Jóna keppti á EM undir 20 ára á árinu þar sem hún hafnaði í fjórða sæti í 200 metra hlaupi og var einnig hluti af íslenska Evrópubikarliðinu sem kom sér upp um deild í sumar.

Þetta er annað árið í röð sem Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er meðal tíu efstu í kjörinu. Guðbjörg hafnaði í 8. sæti í fyrra. Það var jafnframt í fyrsta sinn sem hún komst inn á topp 10 listann.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Guðmundur Ágúst varð Íslandsmeistari í höggleik í karlaflokki í fyrsta skipti þegar hann bar sigur úr býtum á Íslandsmótinu í Grafarholti í ágúst. Guðmundur lék hringina fjóra á samtals níu höggum undir pari og var fimm höggum frá næstu mönnum. Þá vann Guðmundur Ágúst þrjú mót á Norðurlandamótaröðinni á árinu og vann sér um leið inn þátttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu á næsta keppnistímabili.

Þetta er í fyrsta sinn sem Guðmundur Ágúst Kristjánsson er á meðal tíu efstu í kjörinu.

Gylfi Þór Sigurðsson

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton á Englandi. Gylfi Þór skoraði fimm mörk eftir áramót á síðustu leiktíð með Everton sem hafnaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Á þessu tímabili hefur Gylfi skorað eitt mark og lagt annað upp fyrir Everton sem situr um miðja deild. Gylfi var í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu og lék hverja einustu mínútu í öllum tíu leikjum liðsins í undankeppni EM. Gylfi skoraði tvö mörk í undankeppninni þar sem Ísland hafnaði í þriðja sæti riðilsins.

Þetta er í níunda sinn sem Gylfi Þór Sigurðsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Gylfi hefur tvisvar hlotið sæmdarheitið íþróttamaður ársins, árin 2013 og 2016. Hann var í fyrsta sinn á meðal tíu efstu árið 2010 og svo allar götur frá 2012. Gylfi hefur aldrei hafnað neðar en í 4. sæti í kjörinu. Þrisvar sinnum hefur hann verið í 2. sæti og tvisvar í 3. sæti.

Júlían J. K. Jóhannsson

Mynd með færslu
 Mynd: Sportmyndir.is

Júlían J.K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni. Júlían vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í plús 120 kílógramma flokki í Dúbaí í nóvember. Á sama móti bætti hann eigið heimsmet í réttstöðulyftu um hálft kíló þegar hann lyfti 405,5 kílóum. Júlían lyfti samanlagt 1.148 kílóum í bekkpressu, réttstöðulyftu og hnébeygju á mótinu í Dúbaí. Á Evrópumótinu í Pilsen í Tékklandi í sumar lyfti Júlían samtals 1.115 kílóum sem skilaði honum silfurverðlaunum í samanlögðu keppninni.

Þetta er í þriðja sinn sem Júlían J. K. Jóhannsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Júlían endaði í 7. sæti árið 2016 og hafnaði í 2. sæti í fyrra, 50 stigum á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur sem vann titilinn.

Martin Hermannsson

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Martin Hermannsson, körfuboltamaður hjá Alba Berlín í Þýskalandi. Martin varð lykilmaður hjá liði Alba Berlín á sinni fyrstu leiktíð með félaginu. Alba Berlín lenti í öðru sæti bæði í þýsku deildinn og í EuroCup-keppninni á síðustu leiktíð. Á þessu tímabili fékk Alba Berlín keppnisrétt í EuroLeague, næst sterkustu körfuboltadeild í heimi á eftir NBA, en þar er Martin í áttunda sæti yfir stoðsendingahæstu leikmenn keppninnar. Martin var yfirburðarmaður í íslenska landsliðinu sem var hársbreidd frá því að komast í undankeppni EM á árinu.

Þetta er í þriðja sinn sem Martin Hermannsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Martin var í 9. sæti árið 2016 og í 10. sæti í fyrra.

Sara Björk Gunnarsdóttir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi. Sara Björk varð Þýskalandsmeistari með Wolfsburg í vor auk þess að vinna þýsku bikarkeppnina með félaginu. Þetta var þriðja árið í röð sem Sara vinnur tvöfalt með Wolfsburg en hún hefur byrjað yfirstandandi keppnistímabil af miklum krafti. Sara hefur skorað fimm mörk fyrir Wolfsburg sem situr í toppsæti þýsku deildarinnar. Þá er Sara Björk fyrirliði íslenska landsliðsins sem vann alla þrjá leiki sína í undankeppni Evrópumótsins á árinu.

Þetta er í áttunda sinn sem Sara Björk Gunnarsdóttir er meðal tíu efstu í kjörinu. Sara hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins í fyrra í fyrsta sinn. Hún var fyrst á topp 10 listanum árið 2011 þegar hún endaði í 4. sæti. Hún hefur svo verið samfleytt á listanum frá og með árinu 2013.

Sara Björk er ein fimm íþróttamanna sem var líka á topp tíu listanum í fyrra. Auk Söru hafa Aron Pálmarsson og Gylfi Þór Sigurðsson áður hlotið heiðurinn, af þeim sem koma til greina í ár. Úrslitin úr kjörinu verða kynnt í beinni útsendingu laugardagskvöldið 28. desember í beinni útsendingu á RÚV. Útsendingin hefst klukkan 19:40.

Þrír efstu þjálfarar ársins

En það verður ekki bara tilkynnt um úrslitin í kjöri íþróttamanns ársins í Hörpu 28. desember. Þar verður úrslitum í kjörinu á liði ársins og þjálfara ársins einnig kynnt.

Samtök íþróttafréttamanna hafa valið þjálfara ársins frá og með árinu 2012. Þrír efstu þjálfararnir í ár eru þessir í stafrófsröð:

Alfreð Gíslason

epa06503513 Kiel's coach Alfred Gislason reacts during the Champions League handball match between THW Kiel and Telekom Veszprem HC in Kiel, Germany, 07 February 2018.  EPA-EFE/FOCKE STRANGMANN
 Mynd: EPA

Alfreð Gíslason, fyrrverandi þjálfari þýska liðsins Kiel í handbolta. Undir stjórn Alfreðs varð Kiel bikarmeistari og vann EHF-bikarinn í ár. Eftir ellefu ára sigursæla veru hjá Kiel kvaddi Alfreð liðið svo í sumar. 

Alfreð vann kjörið um þjálfara ársins 2012 og 2013. Þetta er í fimmta sinn sem hann er meðal þriggja efstu í kjörinu.

Óskar Hrafn Þorvaldsson

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Gróttu í fótbolta. Grótta kom á óvart í fyrstu deildinni í sumar og tryggði sér sæti í úrvalsdeild karla í fyrsta skipti í sögu félagsins, aðeins ári eftir að liðið komst upp úr 2. deild. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Óskar Hrafn Þorvaldsson er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.

Patrekur Jóhannesson

Mynd með færslu
 Mynd:

Patrekur Jóhannesson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta. Selfyssingar urðu í vor Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í handbolta og titillinn var jafnframt sá fyrsti í sögu félagsins í boltaíþrótt.

Þetta er í fyrsta sinn sem Patrekur Jóhannesson er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.

Þrjú efstu lið ársins

Lið ársins verður einnig útnefnt í Hörpu á laugardagskvöld. Samtök íþróttafréttamanna hafa kosið lið ársins frá árinu 2012. Þrjú efstu liðin í kjörinu þetta árið eru í stafrófsröð þessi:

Karlalið Selfoss í handbolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Karlalið Selfoss í handbolta. Selfoss braut blað í íþróttasögu sinni þegar karlalið félagsins varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skipti i maí. Fjölmargir ungir uppaldir Selfyssingar voru í stórum hlutverkum hjá liðinu sem lagði Hauka að velli í úrslitaeinvíginu, 3-1. 

Þetta er í fyrsta sinn sem karlalið Selfoss í handbolta er meðal þriggja efstu í kjörinu á liði ársins.

Kvennalið Vals í handbolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Kvennalið Vals í handbolta. Valur skráði nafn sitt á alla bikara ársins í handbolta kvenna. Í mars varð Valur deildar- og bikarmeistari og í apríl bættist Íslandsmeistaratitillinn í safnið. 

Kvennalið Vals í handbolta hefur einu aldrei áður verið meðal þriggja efstu í kjörinu. En karlalið Vals í hamdbolta var í 3. sæti árið 2017.

Kvennalið Vals í körfubolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Kvennalið Vals í körfubolta. Valskonur unnu alla titla sem í boði voru á síðustu leiktíð. Valur varð deildarmeistari, bikarmeistari og Íslandsmeistari í vor en fyrir tímabilið hafði Valur aldrei unnið stóran titil í kvennaflokki. 

Þetta er í fyrsta sinn sem kvennalið Vals í körfubolta er meðal þriggja efstu í kjörinu á liði ársins.