Tíu ára McDonald's-borgari enn í góðu standi

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Marsibil Clausen

Tíu ára McDonald's-borgari enn í góðu standi

31.10.2019 - 13:47

Höfundar

Nýjasti íbúi Þykkvabæjar er 10 ára í dag. Og hann er hamborgari. Hann, sem og franskarnar við hlið hans í sýningarskápnum á Snotru Hosteli, var keyptur 31. október 2009, daginn sem McDonald's lagði upp laupana á Íslandi.

Fyrir sléttum áratug renndi Hjörtur Smárason við á McDonald's við Suðurlandsbraut, keypti hamborgara og franskar og tók með heim í bréfpoka. 

Hann vissi svo sem ekki nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera við góssið en hann hafði heyrt að McDonald's-hamborgarar rotnuðu ekki og langaði að sjá hvort það stæðist. Þremur árum síðar var hann að undirbúa flutninga til Danmerkur þegar hann rakst á bréfpokann í bílskúrnum sínum. Innihaldið var í fullkomnu ásigkomulagi.

„Hann var eiginlega orðinn sögulegur gripur. Þetta er bæði tákn um þá tíma sem voru í gangi á Íslandi eftir hrun og um McDonald's sem að þurfti að loka,“ segir Hjörtur. „Hvað gerir maður við sögulega gripi? Ég hringdi í Þjóðminjasafnið og spurði hvort þeir vildu hamborgarann. Og þau sögðu já takk.“

Heimsfrægur og geymir sig sjálfur

Hamborgarinn fékk þó aðeins að vera á safninu í ár. Eftir það ákvað sérfræðingur frá Danmörku að safnið væri ekki í stakk búið til að geyma matvæli. Margt mælir reyndar á móti þeirri fullyrðingu - hamborgarinn geymir sig hreinlega sjálfur. 

En út skyldi borgarinn og fékk hann inni á Bus Hostel í Reykjavík. Þar var sett upp vefmyndavél svo hægt væri að fylgjast með honum mygla (eða ekki) í beinni. Fyrir utan stöku bíræfinn frönskuþjóf og almenna undrun hostelgesta hlaut hann þó litla athygli þar til blaðamenn komust á snoðir um tilvist hans árið 2015. Mbl.is greindi fyrst frá málinu en eftir að frétt Grapevine fór á flug um hinn enskumælandi heim rigndi fyrirspurnum frá erlendum miðlum yfir Bus Hostel.

„Hann fékk milljónir, borgarinn, í áhorf,“  segir Sigurður Smári Gylfason, fyrrum eigandi Bus Hostel. „Einhvern tíma kom það fyrir að útsendingin datt niður og fjölskylda í Bandaríkjunum hafði samband við okkur. Þetta væri eiginlega skylduáhorf, dæmi um það sem ætti ekki að borða.“

Mynd með færslu
Sigurður Smári Gylfason hýsir síðasta McDonald's-hamborgarann á Snotru Hosteli.

Ekki myglublett að sjá

Þegar Sigurður seldi Bus Hostel fylgdi hamborgarinn ekki með í kaupunum. Þess í stað fluttist hann búferlum, og franskarnar að sjálfsögðu líka, á Suðurland, á Snotru Hostel í Þykkvabæ nánar til tekið. Þar er enn hægt að fylgjast með honum í beinni útsendingu og ferðamenn bregða sér oft af þjóðveginum til að berja hann augum. 

Þótt stjörnumáltíð þessi fylli áratug í dag lítur hún alls ekki út fyrir það. Franskarnar eru ansi þurrar og færri en í upphafi sökum fyrrnefnds ágangs hostelgesta en ef eitthvað er lítur hamborgarinn, brauðið og osturinn betur út en þegar undirrituð heimsótti hann fyrst fyrir rúmum fimm árum síðan. Máltíðin gæti allt eins verið vikugömul. Það er ekki myglublett að sjá og raunar eru það helst umbúðirnar sem farnar eru að fölna. Hversu lengi getur þetta haldið áfram?

„Þetta er sjálfsagt rannsóknarverkefni, hvernig hann lítur út eftir önnur tíu ár,“ segir Sigurður sem kemur ekki ti hugar að henda hamborgaranum góða. „Hann verður vonandi hér mikið lengur.“ 

Fjallað er ítarlega um ris og fall McDonald's á Íslandi í örseríunni Mc'blessi Ísland í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á fyrstu þrjá þættina hér að neðan en sá síðasti fer í loftið kl. 17:05 í dag.


Þegar Davíð tók fyrsta Big Mac bitann

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

 


„Góðan Mcdaginn!“ – fyrrum starfsmenn segja frá

Mynd: EPA / EPA

 


Bankar hrynja og McDonald's með

Mynd: CC0 / Pixabay

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þegar Davíð tók fyrsta Big Mac bitann