Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu ár í bann við nýjum bensín- og díselbílum

25.05.2019 - 19:00
Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson, Kris / RÚV
Aðeins eru rúm tíu ár þar til nýir bensín- og dísilbílar verða bannaðir. Ákvörðun fólks um hvernig bíl það kaupir hefur áhrif á alla þjóðina, segir framkvæmdastjóri Orkuseturs og vísar til skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Áfram verði að byggja upp innviði til að auðvelda orkuskipti í samgöngum.

Byggja þarf upp innviðina og tryggja framboðið

Á annan tug þúsunda fólksbíla hér nota aðra orkugjafa en einvörðungu jarðefnaeldsneyti. Það er innan við 1% af fólksbílum. Flestir eru tengil-tvinnbílar, sem ganga fyrir rafmagni, og jarðefnaeldsneyti en líka metanbílar, vetnisbílar og svo rafbílar, sem nú eru 3.212 samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu.

En betur má ef duga skal. Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verða nýskráningar dísil- og bensínbifreiða óheimilar eftir 2030. 

„Við þurfum náttúrulega að aðlaga innviði og verð til kaupenda þannig að þetta sé álitlegur kostur en svo náttúrulega verðum við að treysta á ytri þætti eins og bílaframleiðendur að skaffa okkur bíla í nægilegu magni. Og það hafa verið smá flöskuhálsar á því,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs. Hann gerði skýrslu um orkuskipti í vegasamgöngum fyrir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið í ágúst í fyrra.

Næstbest á eftir Noregi

Eftirspurnin er alls staðar mikil og bílaframleiðendur hafa ekki undan. Norðmenn ætla að hætta með jarðefnaeldsneytisbíla 2025. 

„Þeir eru vissulega bestir en við erum næstbestir og erum með næsthæsta hlutfall nýskráninga.“

Meiri skattar eru lagðir á jarðefnaeldsneytisbíla í Noregi en hér og ívilnanir hér og þar eru álíka miklar nema að hér eru þær meiri í tengiltvinnbílum. 

„Ég held að mikilvægast sé að fá fólk til þess að stinga í samband. Og þeir, sem að treystu sér ekki til að fara alla leið, þeir kannski fóru yfir í tengiltvinnbílana. Ég er sannfærður um að það sé ákveðið tímabil.“

Enn þarf að byggja upp innviði betur til þess að bílaleigurnar og þar með ferðamenn noti rafbíla. Það skiptir miklu máli, segir Sigurður Ingi, því stór hluti bílaflota landsmanna sé fyrrverandi bílaleigubílar. 

Bull að rafbílar séu óumhverfisvænir

Gagnrýnt hefur verið að töluverð mengun sé líka af rafbílum. 

„Ég held að þenkjandi fólk, sem skoðar gögn og staðreyndir, átti sig á því að það er í raun og veru bull að rafmagnsbílar séu óumhverfisvænir. Þeir eru miklu umhverfisvænni og sérstaklega á Íslandi þar sem hver einasta innstunga gefur þér losunarfrítt rafmagn. Það er mikilvægt og við verðum að hafa það í huga. Vissulega er það rétt að þegar rafbíll kemur á götuna þá hefur hann fæðst með örlítið stærra kolefnisspor en það hreinast strax upp á Íslandi, nánast inn árs. Og allir kílómetrar eftir það eru til bóta.“

Ekki lengur bara persónuleg ákvörðun

Bíll, sem keyptur er nýr í dag, verður að líkindum enn á götunum 2030. Það þýðir að það sem hann mengar, ef hann þá mengar, verður hluti af mengun bílaflotans okkar þegar kemur að því að sýna fram að Ísland standi við sinn hluta Parísarsamkomulagsins.

„Þetta er að breytast úr því að vera algerlega persónuleg ákvörðun yfir í ákvörðun sem hefur áhrif á alla þjóðina.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson, Kris - RÚV
Sigurður Ingi Friðleifsson
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson, Kris - RÚV
Vetnisdæla á fjölorkustöð við Miklubraut
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson, Kris - RÚV
Metani dælt á bíl