Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tíu ár frá Suðurlandsskjálftanum

Mynd: Skjáskot / RÚV
Malbik á þjóðvegi eitt og fleiri vegum flettist upp, hús stórskemmdust, persónulegir munir og húsgögn lágu eins og hráviði út um öll gólf á fjölda heimila á Suðurlandi. Fólki sem hafði fundið hressilega fyrir Suðurlandsskjálftanum átta árum áður var verulega brugðið og sagði að það hefði aldrei upplifað annað eins. Þetta voru fyrstu birtingarmyndir Suðurlandsskjálftans sem reiðir yfir þegar klukkuna vantaði fjórtán mínútur í fjögur fimmtudaginn 29. maí 2008.

Upptökin nærri Hveragerði og Selfossi

Skjálftarnir árið 2008 voru reyndar tveir en ekki einn, og þeir voru ekki jafn stórir og skjálftarnir sem riðu yfir með fjögurra daga millibili átta árum áður. En skjálftarnir nú riðu yfir með þriggja sekúndna millibili og voru nær helsta þéttbýli Suðurlands og höfðu því enn meiri áhrif. Sá stærri var 6,3. Fólk yfirgaf heimili sín og fór út á götur þegar skjálftinn reið yfir. Fólk í Ölfusi, á Selfossi og í Hveragerði var beðið um að vera ekki innandyra vegna hættu á frekari skjálftum. Þau fyrirmæli voru þó afturkölluð rúmum þremur klukkutímum eftir að stærsti skjálftinn reið yfir þegar yfirvöldum þótti ólíklegt að annar álíka stór skjálfti riði yfir.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir hæsta viðbúnaðarstigi og allar tiltækar björgunarsveitir á Suðvesturlandi voru sendar á Suðurland til starfa auk þess sem Rauði krossinn setti sína starfsemi í gang. Atvinnulíf fór úr skorðum og næsta dag, föstudag, var skólahald fellt niður í Árborg.

Það var ekki aðeins Suðurlandið sem skalf. Íbúar annars staðar á suðvesturhorninu urðu hans áþreifanlega varir, háar byggingar á höfuðborgarsvæðinu sveifluðust og fólk fann fyrir skjálftanum á Ísafirði.

Sjúkrahúsið rýmt

Menn og dýr voru felmtri slegin. Og þarf ekki að koma á óvart. Hátt í 30 manns leituðu á heilbrigðisstofnanir vegna áverka sem þeir hlutu í jarðskjálftanum. Sprungur mynduðust í veggjum húsa. Innanstokksmunir fóru á fleygiferð og víða þakti brotið gler gólfin.

Sjúkrahúsið á Selfossi var rýmt meðan hættan þar inni var metin. Fjósveggur hrundi í Ölfusi. Ölfusárbrú var lokað skamma stund eftir jarðskjálftann og Óseyrarbrú nokkuð lengur. Flöskur hrundu fram úr hillum Vínbúðarinnar í Hveragerði og þar flæddi áfengið um gólf.

Guðbjartur Hannesson. - Mynd: Anton Brink / Ruv.is

Þögn sló á þingheim

Þingmenn voru að ljúka störfum fyrir sumarhlé þingsins þegar skjálftinn reið yfir. Guðbjartur Hannesson heitinn, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, var í ræðustól í umræðu um lagafrumvarp um frístundabyggð þegar jarðskjálftinn reið yfir.

Guðbjartur þagnaði nokkra stund þegar þingmenn urðu skjálftans varir og heyrðust undrunarhljóð frá sumum. „Þetta er nú ekki svona stórt mál, sagði Guðbjartur og þagnaði um skeið. „Ja hérna,“ sagði hann eftir að skjálftinn hafði hrist þinghúsið í nokkra stund. Þegar látunum linnti hélt Guðbjartur áfram: „Í trausti þess að allt sé með eðlilegum hætti annað en að húsið hristist hér,“ sagði Guðbjartur og hélt áfram þótt gripið væri fram í fyrir honum. „Já, ég tel málið ekki vera það stórt að ástæða sé til þess að húsið hristist en ég ætla að treysta á að engin hætta sé á ferðum og ætla að halda áfram málflutningi.“

Andinn í þinghúsinu breyttist þegar fréttir fóru að berast af atburðum á Suðurlandi. Þingmenn höfðu því hugann þar rétt eins og við störf sín í þinginu. Þegar það fór að skýrast hversu miklar afleiðingar skjálftinn hafði kvað Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sér hljóðs á þingi og sagði að ríkisstjórnin myndi gera allt sitt til að koma þeim til hjálpar sem á þyrftu að halda.

Mynd með færslu
 Mynd:

Tveir skjálftar en ekki einn

„Þessi skjálfti kom í framhaldi af þeim skjálftum sem byrjuðu árið 2000, sem voru austar. Það lá nokkuð ljóst fyrir strax eftir þá skjálfta að það væri enn eftir spenna á Suðurlandi sem ætti eftir að losna á næstunni. Þannig að þessi skjálfti kom ekki alveg óvænt,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði.

Einn af lærdómum Suðurlandsskjálftans 2008 var því að forspár vísindamanna um stærð og staðsetningu jarðskjálftanna gekk eftir. Lexíurnar voru þó fleiri. „Það sem okkur þótti merkilegast á sínum tíma og þykir enn þá er að þetta var í raun og veru ekki einn skjálfti heldur heldur tveir. Það kom svolítið flatt upp á okkur að þeir skyldu gerast með svona stuttu millibili. Það liðu sirka þrjár sekúndur á milli skjálftanna.“ Fyrsti skjálftinn átti upptök sín í vesturhlíðum Ingólfsfjalls, í sprungu sem liggur frá Kögunarhóli norður með vesturhlíð Ingólfsfjalls. Ívið stærri skjálfti varð fimm til sex kílómetrum vestar á annarri sprungu sem þar liggur upp með Reykjafelli og í áttina að Gufudal, nánast í útjaðri Hveragerðis.

Staðsetning skjálftanna tveggja og tímasetning skipi máli. „Það olli tiltölulega miklu tjóni miðað við stærð skjálftans, þá olli þetta meira tjóni en ella hefði orðið. Fyrri skjálftinn var tiltölulega nálægt Selfossi og seinni skjálftinn tiltölulega nálægt Hveragerði og þetta eru náttúrulega þéttbýlisstaðirnir á svæðinu,“ segir Páll.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Páll segir að þetta hafi ekki komið algjörlega á óvart. „Við höfðum séð að hlutirnir gerðust tiltölulega hratt líka árið 2000. Þá fylgdi fyrsta skjálftanum 17. júní, eins og margir muna, röð skjálfta sem voru minni en álitlegir skjálftir engu að síður, sem færðu sig í vestur strax fyrstu mínúturnar eftir stóra skjálftann. Þetta var þekkt að einn skjálfti gæti hleypt öðrum af stað. Það sem kom okkur á óvart var að þetta gerðist svona hratt, að það voru bara þrjár sekúndur milli þessara tveggja skjálfta.

Alvöru Suðurlandsskjálftar en í minni kantinum

„Þetta eru nægilega stórir skjálftar þannig að við köllum þetta svona alvöru Suðurlandsskjálfta. Hins vegar voru þeir í minni kantinum,“ segir Páll. Þannig voru þeir minni en skjálftarnir 1896 og 1912 sem voru sjö stig. „Ennþá höfum við ekki séð neitt slíkt í þessari kviðu sem byrjaði árið 2000.“

Páll segir að ekki sé búið að losa nema um helminginn af þeirri spennu sem hafði safnast upp árið 2000, frá árinu 1912 eða jafnvel 1896. „Við verðum að enn að álykta sem svo að það sé spenna í jarðskorpunni sem ekki eru búið að losa að þessu sinni.“ Óljóst er hvort það gerist í þessari kviðu eða að það verði óvenju stutt bil fram að næstu kviðum. Jarðskjálftakviður hafa varað frá 45 upp í rúmlega hundrað ár. „Það er nægilega mikill breytileiki í þessu til þess að ekki er hægt að ganga að neinu vísu.,“ segir Páll. „Ef maður horfir á eðlisfræðina í málinu þá má kannski gera ráð fyrir að ef lítið losar núna þá verður kannski stutt þar til spennan verður aftur orðin há til að búa til nýja skjálfta.“

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar voru þegar skjálftarnir riðu yfir.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Sextán milljarðar úr Viðlagatryggingu

Viðlagatrygging greiddi um sextán milljarða króna að núvirði í bætur vegna tjóns af völdum Suðurlandsskjálfta. Sjóðurinn bætti tjón á rúmlega fjögur þúsund húsum og nam hvert tjón að meðaltali 2,7 milljónum króna. Dreifingin var þó mikil. Í um 40 prósentum tilfella kostaði að um eða undir eina milljón króna að bæta tjón á húsum. Sjötíu prósent skemmda voru metnar á um eða innan við tvær milljónir króna að núvirði. Í tíu prósentum tilfella voru bætur vegna skemmda hins vegar fjórar milljónir króna eða meira.

Það er til marks um hversu mikið tjónið var af völdum Suðurlandsskjálfta að hann er eina dæmið þess að Viðlagatrygging sótti fé til erlenda endurtryggjenda. Sjóðurinn naut fyrstu ár sín endurtryggingar úr ríkissjóði en það breyttist árið 1992. Þá fór Viðlagatrygging að kaupa endurtryggingar af erlendum tryggingafélögum, sem nýst gætu við mestu útgjöld sjóðsins. Á það reyndi í fyrsta, og enn sem komið er eina, skipti í Suðurlandsskjálftanum 2008.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV